
Þjóðin verður að leggja línurnar
Annars vegar verða kjósendur spurðir hvort þeir vilji leggja tillögur ráðsins til grundvallar nýrri stjórnarskrá en hins vegar um afstöðu þeirra til nokkurra lykilatriða í tillögum ráðsins. Aðdragandi málsins er langur en verður ekki rakinn hér. Aðalatriðið er að nú liggur fyrir heildartillaga í frumvarpsformi um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og að þjóðinni gefst með atkvæðagreiðslunni einstakt tækifæri til að stuðla að því að nýr og traustur grundvöllur verði lagður að þjóðfélagi okkar.
Um hvað verður spurt?Eftirfarandi spurningar verða lagðar fyrir kjósendur:
1.Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
2.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
3.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
4.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
5.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
6.Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Þeir sem eru í einu og öllu sammála tillögum stjórnlagaráðs svara öllum spurningum með jái nema þeirri þriðju með neii. Komi í ljós skýr vilji kjósenda um að einhverjum af spurningum beri að svara með öðrum hætti, verður að ætla að þingið breyti tillögum ráðsins í samræmi við það. Í skoðanakönnun sem gerð var í lok mars sl. um spurningarnar tjáðu fjórir fimmtu hlutar kjósenda sig þó sammála ráðinu í þessum atriðum. Þó voru þeir álíka margir sem vilja þjóðkirkjuákvæðið inni og hinir sem vilja að það hverfi úr stjórnarskránni eins og ráðið leggur til.
Málið verður kynntGreinarhöfundur mun fjalla um spurningarnar vikulega fram að kjördeginum hér í Fréttablaðinu. Í kjölfar þessa inngangs verða teknar fyrir þær þeirra sem lúta að einstökum álitamálum en í lokin fjallað um málið í heild, þ.e. meginspurninguna, þá fyrstu. Ætlunin er að upplýsa og færa rök fyrir þeim svörum sem samrýmast tillögum stjórnlagaráðs. Gagnraka verður einnig getið og þeim svarað. Höfundur sat í stjórnlagaráði og stóð að tillögum þess í heild. Málsmeðferðin tekur vitaskuld mið af því.
Um þjóðaratkvæðagreiðslur gilda sérstök lög (nr. 91/2010) en þar er m.a. mælt fyrir um að Alþingi skuli standa fyrir víðtækri kynningu á málefninu. Þess er að vænta að myndarlega verði að því verki staðið. Á okkur sem sátum í stjórnlagaráði hvílir á hinn bóginn einnig sú siðferðislega skylda að upplýsa og mæla fyrir tillögum okkar. Því eru þessir pistlar ritaðir.
Til frekari upplýsingar skal bent á vefsíðu stjórnlagaráðs, Stjornlagarad.is, þar sem bæði má sjá tillögur ráðsins í heild sinni ásamt ítarlegri greinargerð, auk þess sem rekja má umræður og atkvæðagreiðslur í ráðinu. Þá er gagnlegt að bera frumvarp ráðsins að nýrri stjórnarskrá saman við gildandi stjórnarskrá, grein fyrir grein. Slíkan samanburð er að finna á vefsíðunni thorkellhelgason.is/?p=1175. Að lokum má benda á lítið kver, Ný stjórnarskrá Íslands, með frumvarpi ráðsins í heild sem fæst við vægu verði í heldri bókabúðum.
Stjórnarskrármálinu lyktar ekki með þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust þar sem niðurstöður hennar eru ekki bindandi fyrir Alþingi. Engu að síður er þetta mikilvægt skref sem mun þoka málinu vel áfram. Því er brýnt að allir kynni sér viðfangsefnið vandlega og taki afstöðu og mæti á kjörstað. Það er von undirritaðs að lokaniðurstaðan verði góð stjórnarskrá, þar sem öll helstu markmiðin í tillögum stjórnlagaráðs nái fram að ganga.
Skoðun

Leyfum börnum að vera börn
Sigga Birna Valsdóttir skrifar

„Helvítis harmonikkuþjófarnir“
Pálmi Gunnarsson skrifar

Samfélagsbankar: Mótvægið sem okkur vantar í bankamálum
Guðmundur D. Haraldsson skrifar

Góð samvinna og samtal er uppskrift árangurs
Alma Ýr Ingólfsdóttir skrifar

Mikilvægi félagslegs stuðnings fyrir ungmenni
Ágúst Arnar Þráinsson skrifar

Eru sum sjálfsvíg þolanlegri en önnur?
Ásdís Bergþórsdóttir skrifar

Þegar tilgangurinn helgar meðalið
Högni Elfar Gylfason skrifar

Hópur af alkóhólistum að ræða um unglingadrykkju
Skúli Bragi Geirdal skrifar

Seðlabankastjóri hengir bakara fyrir smið
Indriði Ingi Stefánsson skrifar

Er það góð hugmynd?
Haraldur F. Gíslason skrifar

Hvað ef það er ekki „allt í gulu“?
Liv Anna Gunnell skrifar

Áfram gakk og gefum íslensku séns
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson skrifar

Tveir fyrir einn í mannréttindum
Sigmar Guðmundsson skrifar

Amman og stuðningsfjölskyldan
Bergvin Oddsson skrifar

Hvernig fylgist ég með hlutabréfamarkaðnum?
Baldur Thorlacius skrifar

Hvalveiðiþversögnin
Micah Garen skrifar

Viltu elska mig?
Anna Gunndís Guðmundsdóttir,Húgó skrifar

Verum vel læs á fjármálaumhverfið
Sólveig Hjaltadóttir,Þórey S. Þórðardóttir skrifar

Nætursilfrið
Ingólfur Sverrisson skrifar

Nám snýst um breytingar
Arnar Óskarsson skrifar

Er skóli með menntuðum kennurum draumsýn?
Mjöll Matthíasdóttir skrifar

Þegiðu og ég skal hætta að hata þig!
Arna Magnea Danks skrifar

Kverkatak
Gylfi Þór Gíslason skrifar

Jákvæðu áhrifin af komu flóttamanna
Ingólfur Shahin skrifar

Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk
Alma Ýr Ingólfsdóttir skrifar

Krónan, eða innganga í ESB og evran?
Hilmar Þór Hilmarsson skrifar

Um túlkun Mannréttindastjóra Reykjavíkur á kynrænu sjálfræði
Eva Hauksdóttir skrifar

Geðráð eflir notendur geðþjónustunnar
Willum Þór Þórsson skrifar

Er mannekla lögmál?
Árný Ingvarsdóttir skrifar

Klingjandi málmur og hvellandi bjalla
Árný Björg Blandon skrifar