Skoðun

Ofbeldi eyðileggur góða skemmtun

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Nú þegar Verslunarmannahelgin er framundan hlakkar marga eflaust til að koma saman og skemmta sér vel á útihátíðum vítt og breitt um landið. Það er eðlilegt, ekki síst í ljósi þess að síðastliðin tvö sumur hefur slíkt skemmtanahald legið í láginni vegna faraldursins. Nú skulum við sameinast um að halda góða skemmtun og koma öll heil heim. Því miður hefur það í áranna rás verið fylgifiskur útihátíða að þar á sér stað ofbeldi, ekki síst kynferðisofbeldi. Því verður að breyta og það getum við ef við leggjumst öll á eitt.

Dómsmálaráðuneytið, ríkislögreglustjóri og Neyðarlínan settu á fót starfshóp gegn kynferðisofbeldi um áramót þar sem ég á sæti. Meðal áhersla starfshópsins er að stemma stigu við ofbeldi í skemmtanalífinu. Fyrri hluta árs réðumst við í vitundarvakningu undir kjörorðunum „Verum vakandi – Er allt í góðu?” og nú í sumar „Góða skemmtun”.Þar erum við að hvetja almenning til að vera vakandi fyrir hegðun sem gæti leitt til ofbeldis, einkum á næturlífinu um helgar þegar flest brotin eiga sér stað. Sjáum við eitthvað sem gæti verið undanfari ofbeldis? Þá má stíga inn í og spyrja hvort allt sé í góðu. Ef aðstæður eru augljóslega orðnar ofbeldisfullar og ekki skynsamlegt að stíga beint inn í þá skal hringt í 112 símanúmer Neyðarlínunnar. Þar er fólk þrautþjálfað til að leysa málin, veita ráðgjöf og eftir atvikum senda lögreglu á staðinn. Sömuleiðis er á vef Neyðarlínunnar 112.is að finna mikið magn upplýsinga um ofbeldi og hægt að ræða við neyðarvörð á netspjallinu.

Það var forgangsmál hjá Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra að gera nauðsynlegar kerfisbreytingar og ráðast í þessa vitundarvakingu til að þolendur fái betri móttökur þegar mál þeirra kom inn í kerfið. Líka að sinna forvörnum svo hægt sé að draga sem mest úr kynferðisofbeldi en um leið fjölga tilkynningum um slíkt ofbeldi. Höfuðmarkmiðið að auka traust á kerfinu. Í starfshópnum sitja auk mín, Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, sem er formaður og leiðir hópinn, Hildur Sunna Pálmadóttir lögfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu og Eygló Harðardóttir verkefnastjóri aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra.

Breytingar í rétta átt

Í vinnu starfshópsins höfum við átt fundi og samtöl við ótrúlegan fjölda fólks sem kemur að úrvinnslu ofbeldismála á einn eða annan hátt. Rætt hefur verið við önnur ráðuneyti, Reykjavíkurborg, lögregluembættin hringinn í kringum landið, þolendasamtök og þolendamiðstöðvar auk Samtakanna 78. Saman erum við að leita leiða til að bæta allt kerfið fyrir þolendur kynferðisofbeldis og það er að takast í veigamiklum atriðum. M.a. með skýrari rekstrarramma og -forsendum fyrir þolendamiðstöðvar, aukinni sálfræðiþjónustu og ráðgjöf, eflingu ofbeldisgáttar 112 með upplýsingum um réttarvörslukerfið og fyrir þolendur kynferðisofbeldis, áframhaldandi þróun á þjónustugátt lögreglunnar, aðgerðir vegna ofbeldis gegn hinsegin fólki og reglubundinni birtingu tölfræðiupplýsinga um kynbundið ofbeldi á landsvísu. Að auki er verið að bæta við rannsakendum, ákærendum og tæknifólki innan lögreglunnar til að bæta gæði rannsókna og stytta málsmeðferðartíma.

Starfshópurinn skilar dómsmálaráðherra annarri áfangaskýrslu sinni í haust en þeirri fyrstu var skilað í vor. Lokaskýrslan kemur í árslok og þá verður árangur starfsins kynntur almenningi á blaðamannafundi.

Verslunarmannahelgi á að vera góð skemmtun

Verslunarmannahelgin á að skilja eftir sig góðar minningar um góða skemmtun með vinum og vandamönnum. Það er eftirsóknarvert markmið ef við getum haldið verslunarmannahelgi þar sem ekkert ofbeldi á sér stað, ekkert kynferðisofbeldi, engin nauðgun. Með samhentu átaki getum við vonandi unnið okkur að því markmiði. Neyðarlínan hefur þjálfað og frætt þau sem standa að hátíðarhöldum helgarinnar þannig að fólki getur leitað til þeirra um helgina og svo hvet ég fólk til að hlaða niður 112 appinu þar sem nálgast má allar upplýsingar og hafa beint samband við neyðarvörð.

Gleðilega Verslunarmannahelgi og góða skemmtun.

Höfundur er ráðfjafi dómsmálaráðherra í starfshópi um vitundarvakningu og forvarnir gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.