Erlent

Sushi-æðið hækkar verð á laxi

Sushi Í fyrra borðaði nær helmingur fullorðinna í Noregi sushi.
Sushi Í fyrra borðaði nær helmingur fullorðinna í Noregi sushi.
Framleiðsla eldislax í Noregi er að nálgast leyfilegt hámark og má búast við verðhækkun, að því er framkvæmdastjóri Grieg Seafood, Morten Vike, segir í viðtali á fréttavef Bergens Tidende.

Yfirvöld hafa sett takmörk við því hversu mikið magn af laxi megi vera í eldiskvíunum. Markmiðið er meðal annars að halda ýmsum sjúkdómum í skefjum. Framleiðslan á eldislaxi í Noregi hefur aukist um 20 prósent í ár, úr einni milljón tonna í 1,2 milljónir. Framleiðendur sem eru með of mikinn fisk í kvíunum eiga á hættu að vera sektaðir.

Aukin eftirspurn helst að hluta til í hendur við vinsældir sushi um allan heim, að því er Vike telur.

„Það er mikill vöxtur á nýjum mörkuðum, eins og í Rússlandi og Kína, og það er jafnframt mikill vöxtur á öðrum mörkuðum. Niðurstöður kannana sýna að í Noregi borðaði nær helmingur fullorðinna sushi á liðnu ári.

Í fyrra féll verð á eldislaxi úr 40 norskum krónum á kíló í 20 krónur. Salan jókst þegar verðið lækkaði en Grieg Seafood var rekið með tapi og varð að endurfjármagna lán sín. Verðið er nú komið í 25 krónur á kíló og gerir Vike ráð fyrir hagnaði á síðasta ársfjórðungi þessa árs.

Ekki er gert ráð fyrir að framleiðslan aukist jafnmikið á næsta ári og í ár. Spáð er fimm prósenta aukningu á heimsvísu. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×