Erlent

Segir stjórnina í Sýrlandi að falli komna

Riad Hijab Forsætisráðherrann fyrrverandi gekk til liðs við uppreisnarmenn þann 6. ágúst og segir að stjórnin sé að falli komin.
Riad Hijab Forsætisráðherrann fyrrverandi gekk til liðs við uppreisnarmenn þann 6. ágúst og segir að stjórnin sé að falli komin. nordicphotos/AFP
„Stjórnin er að falli komin, bæði siðferðislega og efnahagslega, fyrir utan þá bresti sem komnir eru í herinn,“ sagði Riad Hijab, fyrrverandi forsætisráðherra Sýrlands, á blaðamannafundi í Jórdaníu í gær.

Þetta var í fyrsta sinn sem hann tjáði sig opinberlega eftir að hann gekk til liðs við uppreisnarmenn í síðustu viku.

Hann hvatti fleiri sýrlenska ráðamenn til þess að forða sér og ganga til liðs við uppreisnarmenn.

„Sýrland er krökkt af heiðvirðum embættismönnum og herforingjum sem bíða færis til að ganga til liðs við byltinguna,“ sagði Hijab, sem er æðsti embættismaður landsins sem flúið hefur land.

Hann var þó aðeins þrjá mánuði í embætti forsætisráðherra og hafði aldrei verið í innsta hring stuðningsmanna Bashars al Assad forseta.

„Ég hafði engin völd til að stöðva ranglætið,“ sagði hann á blaðamannafundinum. Uppreisnarmenn í landinu segja að átökin þar hafi kostað meira en tuttugu þúsund manns lífið frá því þau hófust snemma á síðasta ári.

Sameinuðu þjóðirnar telja að um 2,5 milljónir Sýrlendinga hafi orðið fyrir tjóni af völdum átakanna í landinu, ýmist særst, hrakist að heiman eða búi við skort á helstu lífsnauðsynjum.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×