Erlent

Vopnaþungi uppreisnarinnar meiri

Stríðsfangi Uppreisnarmenn segjast ætla að fara vel með fanga sinn og heita því að brjóta ekki reglur Genfarsáttmálans.
Stríðsfangi Uppreisnarmenn segjast ætla að fara vel með fanga sinn og heita því að brjóta ekki reglur Genfarsáttmálans. nordicphotos/afp
Sýrlenskir uppreisnarmenn segjast hafa skotið niður orrustuflugvél stjórnarhersins. Þeir halda flugmanni vélarinnar nú föngnum en sá náði að skjóta sér úr vélinni áður en hún varð eldi að bráð og hrapaði. Sýrlenski stjórnarherinn greindi frá því að flugmaðurinn hefði yfirgefið vélina en segja ástæðuna hafa verið bilun í vélinni.

Uppreisnarmenn birtu myndskeið á vefnum í gær þar sem flugvélin sést og flugmaðurinn talar. Hann er umkringdur fjórum vopnuðum uppreisnarmönnum og segist hafa haft það verkefni að ráðast á svæði uppreisnarmanna.

Sé það satt sem uppreisnarmennirnir segja, að þeir hafi skotið orrustuflugvélina niður með loftvarnarbyssu, þýðir það að þungi skotvopna þeirra hafi snaraukist. Aðeins nokkrir dagar eru síðan uppreisnarmenn áttu lítið eftir af skotvopnum og óskuðu eftir utanaðkomandi hjálp. Á sunnudag biðluðu þeir til alþjóðasamfélagsins að setja flugbann á Sýrlandsher.

Theodore Karasik, sérfræðingur við Hernaðargreiningarstofnunina fyrir Mið-Austurlönd, segir að flæði vopna til uppreisnarmanna sé örugglega mun meira en undanfarnar vikur. „Ef þetta er satt, er það sennilegt að leynilegur stuðningur við uppreisnina sé að verða meiri og öflugri.“

Sádi-Arabía og Katar hafa þegar sagst ætla að útvega uppreisnarmönnum vopn en óvíst er hversu mikill stuðningurinn er.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×