Erlent

Kastaði flösku að hlaupurunum

Flaskan lenti fyrir aftan jamaíska hlauparann Yohan Blake, en hann varð annar í hlaupinu. fréttablaðið/ap
Flaskan lenti fyrir aftan jamaíska hlauparann Yohan Blake, en hann varð annar í hlaupinu. fréttablaðið/ap
Maður kastaði flösku inn á Ólympíuvöllinn í London á sunnudag, í þann mund sem keppendur í úrslitum 100 metra hlaups karla voru að taka af stað. Um bjórflösku úr plasti var að ræða og sakaði hún engan.

Maðurinn heitir Ashley Gill-Webb og er 34 ára gamall Breti. Lögregla segir að hann hafi hrópað ókvæðisorð að hlaupurunum áður en hann grýtti flöskunni inn á völlinn. Bronsverðlaunahafinn í júdó, hollenska konan Edith Bosch, varð vitni að atvikinu. Hún brást ókvæða við og sló hann, en sagði í samtali við hollenska sjónvarpsstöð að vonbrigði og reiði hefðu litað dómgreind hennar.

?Ég hafði séð hann ganga um aðeins fyrr og sagði sessunautum mínum að hann væri furðulegur. Síðan kastaði hann flöskunni og í geðshræringu sló ég hann á bakið með flötum lófa.?

Sebastian Coe, formaður skipulagsnefndar Ólympíuleikanna í London, sagði skáldlegt réttlæti fólgið í barsmíðum Bosch, en dró svo í land og sagðist ekki hafa verið að hvetja til þess að menn tækju lögin í eigin hendur.

Usain Bolt frá Jamaíku, sem sigraði hlaupið, sagðist ekki hafa tekið eftir atvikinu. Bandaríski hlauparinn Justin Gatlin sagði hins vegar að sér hefði brugðið við flöskuna. Atvikið hefði þó ekki haft áhrif á úrslitin, en Gatlin varð þriðji í hlaupinu.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×