Skoðun

Sanngjarnt hvatasamfélag í stað sérhagsmuna og forræðishyggju

Guðmundur G. Kristinsson skrifar
Samfélagsgerð er afleiðing af umhverfi sem þróast í langan tíma. Foreldrar skapa umgjörð í uppeldi sem leggur grunn að hugarfari þeirra barna og börnin beita síðan sömu aðferðum í uppeldi sinna barna. Það eru mikil tengsl á milli foreldra og barna í menntun, tekjum og lífsmunstri og foreldrar eru í uppeldinu að leggja grunn að lífsmunstri sinna barna.

Sú samfélagsgerð sem stjórnmálamenn skapa, er sambærileg við það sem foreldrar skapa í uppeldi. Eru stjórnmálamenn að skapa samfélag sem byggir á sanngirni, réttlæti og trausti eða samfélag sem byggir á eigingirni, afskiptaleysi og að hver sé sjálfum sér næstur?

Stjórnmálamenn hafa verið slæmir foreldrar og hafa ekki skapað gott samfélag. Þeir hafa skapað samfélag sérhagsmuna, mismunað þjóðfélagshópum, komið vinum og vandamönnum í störf og embætti og stuðlað að forgangi vina og vandamanna í atvinnulífi og fyrirtækjarekstri.

Við sjáum þriðju kynslóð stjórnmálamanna ætla að leiða okkar samfélag, en eru þessir aðilar ekki bara að tryggja sérhagsmuni, sem þeirra fjölskylda hefur byggt upp í kynslóðir? Ný gerð stjórnmálamanna gerir grín að helstu gildum samfélagsins, en er samt að gera betri hluti en margir aðrir. Síðan er það reiða fólkið sem lofar samfélagslegum breytingum í nýjum stjórnmálaflokki, en breytingar byggðar á reiði skapa varla gott samfélag.

Í okkar samfélagi er mikið af sérhagsmunahópum sem draga til sín peninga, völd og áhrif. Við erum föst í þeirra neti og nú ráða peningamenn, eigendur fiskveiðiheimilda, fjármálastofnanir, stjórnmálaflokkar, lífeyrissjóðir, verkalýðsfélög og trúfélög of miklu um þróun okkar samfélags. Almenningur hefur gefist upp og sér enga leið til að breyta stöðunni, sem sést vel á því að traust á Alþingi og stjórnmálamönnum hefur aldrei verið minna.

Í samfélaginu eru að þróast sífellt stærri hópar minni máttar, s.s. öryrkja, atvinnulausra, eldri borgara, fátækra, einstæðra foreldra og fleiri og samfélagið nánast framleiðir fólk inn í þessa hópa. Á nokkrum árum hefur 10% af þjóðinni sem áttu 35% af þjóðarauðnum, tekist að hækka það hlutfall í 45% eða næstum helming af öllum verðmætum í landinu. Í þessum tölum endurspeglast aukin misskiptingin sem er afleiðing af hagsmunagæslu stjórnmálamanna í áratugi.

? Er hvati til frumkvæðis í atvinnulífinu?

? Eru opinberir aðilar að styðja við bakið á atvinnulífinu?

? Eru álögur á atvinnulífið sanngjarnar?

? Eru álögur á einstaklinga og fjölskyldur eðlilegar?

? Er framlag til menntunar og félagslegs umhverfis eðlilegt?

? Er stuðningur við almenning í heilbrigðismálum eðlilegur?

? Eru öryrkjar og aldraðir að fá mannsæmandi framlög til framfærslu?

? Er fólk að fá sanngjarnt framlag að lokinni langri vinnuævi?

Hugarfar okkar er í samræmi við það sem stjórnmálamenn skapa á hverjum tíma. Ábyrgð stjórnmálamanna sem skapa samtímalega samfélagsumgjörð á hverjum tíma, er því mikil.

? Samfélagið þarf að tryggja að fólk geti borið ábyrgð á sínu lífi.

? Samfélagið þarf að skapa möguleika á vali um leiðir sem henta hverjum og einum.

? Samfélagið þarf að tryggja að fólk hafi sjálfsákvörðunarrétt um sitt umhverfi.

? Samfélagið þarf að tryggja að sanngjarnir og sambærilegir valkostir standi öllum til boða.

? Samfélagið þarf að tryggja að einstaklingar eða hópar hafi ekki forréttindi fram yfir aðra.

? Samfélagið þarf að koma í veg fyrir óeðlilega hagsmunagæslu eða sérhagsmuni.

? Samfélagið á ekki að stuðla að forræðishyggju eða miðstýringu einhverra hagsmunaafla.

Það þarf að byggja upp eðlilegt hvatasamfélag sem gefur fólki tækifæri til að vaxa og dafna á eigin forsendum. Samfélag með hvata fyrir aldraða til að njóta ávaxta af sínu sparifé, hvata fyrir atvinnulausa til að fara á atvinnumarkaðinn, hvata fyrir öryrkja til að skapa sjálfsaflaumhverfi, hvata fyrir fólk til að mennta sig, hvata til að efla vísindi og rannsóknir, hvata fyrir stofnun nýrra fyrirtækja, hvata fyrir fjárfesta til atvinnuuppbyggingar, hvata til að fjölga atvinnutækifærum og svo mætti lengi halda áfram.

Samfélagið verður aldrei betra eða verra en við sjálf erum á hverjum tíma. Við ákveðum hvort við látum klíkuhópa ræna landinu eða hvort við sköpum aðhald og farveg fyrir heiðarlegt, sanngjarnt og traust samfélag.

Við erum sjálfstæð í hjarta okkar, viljum standa á eigin fótum og bera ábyrgð á eigin umhverfi. Við erum framkvæmdafólk í eðli okkar og samfélagið þarf að stuðla að stuðningi til að okkar frumkvæði geti skapað uppbyggingu. Við þurfum heilbrigðan, heiðarlegan og hófsaman stjórnmálaflokk sem byggir á þessum gildum. Við þurfum Lýðfrelsisflokkinn, hófsaman hægri borgaraflokk sem vill stuðla að jákvæðum breytingum til uppbyggingar í samfélaginu.




Skoðun

Sjá meira


×