Erlent

Þúsundir flýja borgina daglega

Hjálpa særðum félaga sínum.
Hjálpa særðum félaga sínum. nordicphotos/AFP
Þúsundir manna eru sagðir flýja frá Aleppo, fjölmennustu borg Sýrlands, á hverjum einasta degi. Harðar árásir stjórnarhersins á borgina síðustu daga virðast ekki hafa brotið uppreisnarmenn á bak aftur.

Ástandið í borginni versnar dag frá degi. Fólk vantar brýnustu lífsnauðsynjar, eins og matvæli, hreinlætisvörur og lyf.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt sprengjuárásir stjórnarhersins á íbúðahverfi vekja áhyggjur og Arababandalagið, sem Sýrlandsstjórn var áður virtur aðili að, hefur tekið enn sterkar til orða:

„Fjöldamorðin sem framin eru í Aleppo og á öðrum stöðum í Sýrlandi eru stríðsglæpir sem eru refsiverðir samkvæmt alþjóðalögum," segir Nabil Elabary, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, að loknum fundi í höfuðstöðvum bandalagsins í Egyptalandi.

Meðan bardagar stjórnarhersins og uppreisnarmanna geisa í Aleppo hafa sveitir uppreisnarmanna náð á sitt vald tveimur smærri bæjum í nágrenni Aleppo, þar á meðal þorpinu Anand sem er mikilvægt því nú hafa uppreisnarmenn í Aleppo greiða leið eftir þjóðveginum til Tyrklands, þar sem þeir geta fengið birgðir og mannafla.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×