Innlent

Þrengt að botnvörpuveiðum

Úthafskarfaveiðar við Reykjaneshrygg. mynd/landhelgisgæslan
Úthafskarfaveiðar við Reykjaneshrygg. mynd/landhelgisgæslan
Hvað þýðir ákvörðun ESB varðandi botnvörpuveiðar í úthafinu?

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) samþykkti á fimmtudag að banna veiðar ákveðinna fisktegunda utan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar í Norðaustur-Atlantshafinu. Tegundirnar eru allar því marki brenndar að vera botnsæknar og hafa verið sóttar með botnvörpum.

Til skamms tíma var útlit fyrir að framkvæmdastjórnin legði til bann við botnvörpuveiðum í úthafinu, en vegna andstöðu ýmissa þjóða, sérstaklega Frakka, varð þessi raunin. Veiðibannið hefur svipaðar afleiðingar í för með sér, þar sem botnvarpan er notuð til sóknar á þessum tegundum.

Umræðan um skaðsemi botnvörpuveiða er ekki ný af nálinni og síðan árið 2004 hefur hún verið hávær í alþjóðasamfélaginu og var á dagskrá allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna það ár.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir þetta bann ekki hafa áhrif hér á landi, þar sem Ísland sé ekki í Evrópusambandinu. Nánast ekkert sé um botnvörpuveiðar íslenskra skipa í úthafinu. "Við höfum verið með veiðar á Flæmingjagrunni, en þær hafa legið niðri undanfarin ár þar sem ekki hefur verið nein afkoma af þeim."

Friðrik segir að íslenskir útvegsmenn séu ekki fylgjandi einhliða banni á botnvörpuveiðum, en styðji bann í viðkvæmum vistkerfum.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar vera sigur fyrir verndun ákveðinna vistkerfa á djúpsævi. "Sigurinn í þessu er að það er viðurkennt að þetta séu veiðar sem valda skemmdum."

Hann bendir á ákvörðunin gildi aðeins utan 200 mílnanna, en hún sýni þó að ESB vilji vel í þessum efnum. Samningar gerist hins vegar erfiðari þegar komið er inn fyrir 200 mílurnar. Hann efast um að bannið muni hafa áhrif á sameiginlega fiskveiðistefnu ESB, sem er nú í endurskoðun. Þar muni hagsmunir einstakra ríkja verða ráðandi.

Árni segir að lengi hafi verið reynt að koma stjórn á veiðar í úthafinu. Kveðið sé á um þær í Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og úthafsveiðisamningi, en þar sé lítið að finna um verndun viðkvæmra svæða.

"Það er andstaða við botnvörpuveiðar víða í úthöfum þar sem þessi viðkæmu vistkerfi eru, en þar hafa verið stundaðar stjórnlausar veiðar. Tilhneigingin hefur verið sú að koma á alþjóðlegum samningum um stjórnun veiða í úthafinu. Það var reynt í Ríó, en það gekk ekki upp," segir Árni og vísar þar til umhverfisráðstefnu SÞ í Ríó sem var í júní.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×