Erlent

Clinton vill þrýsting á Rússa

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, framarlega í flokki „Vina Sýrlands“ á ráðstefnunni í París.nordicphotos/AFP
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, framarlega í flokki „Vina Sýrlands“ á ráðstefnunni í París.nordicphotos/AFP
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gagnrýndi rússnesk og kínversk stjórnvöld harðlega fyrir að standa í vegi fyrir því að alþjóðasamfélagið geti beitt Sýrlandsstjórn meiri þrýstingi.

„Eina leiðin til þess að það breytist er að hvert einasta ríki, sem á fulltrúa hér, geri Rússum og Kínverjum ljóst að þeir muni gjalda fyrir þetta,“ sagði hún á alþjóðaráðstefnu sem „Vinir sýrlensku þjóðarinnar“ efndu til í París í gær.

Þar voru saman komnir fulltrúar fjölmargra landa til að ræða ástandið í Sýrlandi, sem Clinton sagði vera orðið óþolandi.

Á fundinum var meðal annars samþykkt að útvega uppreisnarmönnum í Sýrlandi betri samskiptabúnað og veita þeim frekari stuðning í baráttu þeirra gegn Bashar al-Assad forseta.

Í gær bárust einnig fréttir af því að Manaf Tlas, sýrlenskur herforingi og einn nánasti samstarfsmaður Assads Sýrlandsforseta, hefði nú snúið baki við honum og flúið land.

„Meira að segja þeir, sem standa honum næst, eru farnir að átta sig á því að það er ekki hægt að styðja slátrara eins og Bashar al-Assad,“ sagði Laurent Fabius, forsætisráðherra Frakklands.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×