Lífið

Spiderman snýr aftur

Hasarmyndin The Amazing Spider-Man var frumsýnd í gærkvöldi. Kvikmyndin hefur hlotið góða dóma frá gagnrýnendum sem og áhorfendum.

The Amazing Spiderman er fjórða kvikmyndin sem fjallar um ævintýri ofurhetjunnar og fá áhorfendur að kynnast áður óþekktum hliðum hennar og verða vitni að tilurð hennar. Í kvikmyndinni tekst Köngulóarmaðurinn á við ómennið The Lizard sem hyggst breyta öllum íbúum New York-borgar í eðlur.

Leikstjórinn, Marc Webb, á að baki langan feril sem leikstjóri tónlistarmyndbanda og hefur meðal annars leikstýrt myndböndum fyrir hljómveitir á borð við Green Day, P. Diddy, Miley Cyrus og Maroon 5. Webb leikstýrði einnig kvikmyndinni 500 Days of Summer sem hlaut stórgóða dóma. Webb segir myndina fjalla um „pilt sem leitar föður síns en finnur sjálfan sig í staðinn".

Breski leikarinn Andrew Garfield fer með hlutverk Köngulóarmannsins í þetta sinn og tekst vel til ef marka má umsagnir gagnrýnenda. Með önnur hlutverk fara Emma Stone, Rhys Ifans, Denis Leary, Martin Sheen og Sally Field og má því með sanni segja að um einvalalið leikara sé að ræða.

Gagnrýnendur hafa farið lofsamlega um myndina og á vefsíðunni Rottentomatoes.com fær hún 74 prósent ferskleikastig frá gagnrýnendum en 84 prósent frá hinum almenna áhorfanda. Fólk er sammála um að Garfield sé stórgóður sem hinn taugaóstyrki Peter Parker og standi fyllilega undir væntingum. Hin vegar þykir öðrum kvikmyndin nokkuð fyrirsjáanleg og segir einn gagnrýnandi að hafi maður „séð hálfa tylft ofurhetjukvikmynda" hafi maður séð „allt það sem Spiderman hefur upp á að bjóða".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.