Skoðun

Eru verðtryggð húsnæðislán ólögleg?

Guðmundur Franklín Jónsson skrifar
Með lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti sem tóku gildi 1. nóvember 2007, var innleidd í íslenskan rétt MiFID-tilskipun Evrópusambandsins. Með nýjum verðbréfaviðskiptalögum breyttust ýmsar mikilvægar reglur sem lutu að því hvernig standa átti að viðskiptum með verðbréf. MiFID-tilskipunin náði til allra ríkja á EES-svæðinu.

Markmið laganna var að setja samræmdar reglur um neytendavernd fjárfesta og skapa sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu. Lögð er áhersla á aukið eftirlit, faglega framkvæmd og upplýsingagjöf. Þá var löggjöfinni ætlað að tryggja að þeir viðskiptavinir fjármálafyrirtækja, sem eiga í verðbréfaviðskiptum, fái ávallt viðeigandi upplýsingar og ráðgjöf.

FME setur skýrar línurÍ upplýsingabæklingi Fjármálaeftirlitsins sem gefinn var út í sambandi við þessa nýju löggjöf og heitir „Upplýsingarit um MiFID fyrir neytendur – Að fjárfesta í fjármálaafurðum" segir: „Sem dæmi um einfaldar afurðir eru hlutabréf og ýmsar tegundir skuldabréfa. Sem dæmi um flóknar afurðir má nefna: Valréttarsamninga, framtíðarsamninga, skiptasamninga og aðrar afleiður, samninga um fjárhagslegan mismun, breytanleg skuldabréf.

Samkvæmt MiFID-reglunum ber fjármálafyrirtækjum einnig að skipta viðskiptavinum sínum í þrjá meginflokka: 1) viðurkennda gagnaðila, 2) fagfjárfesta og 3) almenna fjárfesta. Síðastnefndi flokkurinn um almenna fjárfesta nýtur mestrar verndar, sem m.a. felst í því að þeim er óheimilt að taka þátt í flóknum fjármálagjörningum á borð við afleiðuviðskipti. Það er einnig ljóst að fjármálastofnunum ber að kynna sér í hvaða flokki fjárfesta hver viðskiptavinur á heima."

Verðtryggð húsnæðislán eru afleiðurEru verðtryggð húsnæðislán afleiður? Verðtryggð lán eru í rauninni svo flókin fjármálaafurð að jafnvel seljandi lánsins getur ekki gefið viðskiptavininum upp í hverju skuldin stendur eftir eitt ár, hvað þá 30 ár. Hækkun lánsins er afleiðing hækkandi neysluverðsvísitölu sem fjöldi afleiddra þátta verkar á t.d. skattahækkanir, eldneytisverð, launakjör, hrávöruverð, hagstjórn, gengi krónunnar o.s.frv.

Áhætta lánsins er að öllu leyti á lántakandanum en ekki seljandanum. Almennir fjárfestar hafa engar forsendur til að meta þá áhættu, sem fylgir verðtryggðu láni og einstaklingum er ekki boðið að kaupa sér verðbólgu-varnir. Sló botninn úr tunnunni þegar vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5% frá fyrra mánuði vegna 11% hækkunar á flugfargjöldum til útlanda, en ekkert flugfélag kannast við þessa hækkun.

Ólögleg söluvaraStrangar reglur gilda um afleiðusamninga og fjármálafyrirtækjum er ekki heimilt að stofna til viðskipta með afleiður við hvern sem er. Hér á landi hafa verðtryggð íbúðalán og önnur neytendalán verið seld um áratugaskeið yfir borðið. Þessi lán hafa ekki verið talin heyra undir lög um verðbréfaviðskipti. Verðtryggð lán eru ekkert annað en flóknir afleiðusamningar og þar af leiðandi ættu þau að heyra undir þá neytendavernd sem lög um verðbréfaviðskipti og MiFID veita.

Að mati Hægri grænna, flokks fólksins, hafa verðtryggð húsnæðislán verið seld ólöglega frá 1. nóv. 2007 og ætlar flokkurinn, ef færi gefst, að leiðrétta öll verðtryggð húsnæðislán með svokallaðri „Kynslóðasátt" eða amerísku TARP-aðferðinni að loknum næstu alþingiskosningum.




Skoðun

Sjá meira


×