Lífið

Ganga 670 km fyrir Blátt áfram

Guðsteinn Halldórsson og Friðjón Hólmbertsson munu ganga 32 km á dag næstu þrjár vikurnar til styrktar baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Fréttablaðið/GVA
Guðsteinn Halldórsson og Friðjón Hólmbertsson munu ganga 32 km á dag næstu þrjár vikurnar til styrktar baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Fréttablaðið/GVA
„Við ætlum að ganga lengstu leiðina þvert yfir landið,“ segir Friðjón Hólmbertsson en hann mun leggja upp í 670 km göngu ásamt vini sínum, Guðsteini Halldórssyni, á morgun til styrktar samtökunum Blátt áfram en þau berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum.

Gönguleiðina nefna þeir frá Fonti til táar þar sem þeir halda af stað frá vitanum Fonti á Langanesi og ganga að Reykjanesvita á Suðurnesjum. Göngugarparnir munu ganga 32 km að meðaltali hvern dag og áætla að ferðin nái yfir 21 dag en þeir hafa það að takmarki að safna einni milljón að lágmarki.

„Við höfum labbað saman síðan árið 1993. Farið út um allt Ísland og til útlanda þar sem við höfum gengið, klifrað og siglt,“ segir Friðjón en þeir Guðsteinn eru meðlimir gönguhópsins Labbakútar sem hefur tekið Ísland með trompi síðustu 20 ár og gengið á flesta staði landsins.

„Hann Guðsteinn er líka svolítið klikkaður. Hann hjólaði hringinn einn í fyrra á ellefu dögum fyrir ADHD,“ segir Friðjón og bætir við að þeir hafi farið erfiðustu leiðina á tæplega 6000 metra topp Kilimanjaro fyrir nokkrum árum.

Aðspurður hvernig málefnið varð fyrir valinu segir Friðjón: „Við vorum alveg níu mánuði að velja samtök en völdum Blátt áfram þar sem það er aldrei nógu mikið gert í þessum efnum.“

Félagarnir hafa opnað vefsíðuna Blattaframgangan.is og Facebook-síðu undir sama heiti þar sem finna má allar frekari upplýsingar. - hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.