Skoðun

Upptaka evru er háð skilyrðum

Þórhildur Hagalín skrifar
Af Evrópuvefnum. Getum við tekið upp evru ef við göngum í Evrópusambandið?



Aðildarríki Evrópusambandsins geta ekki bara tekið upp sameiginlega mynt sambandsins, evru, heldur ber þeim að gera það. Á meðal markmiða sambandsins er „að koma á efnahags- og myntbandalagi þar sem evra er gjaldmiðillinn". Í sáttmálum Evrópusambandsins eru þau aðildarríki sem ráðið hefur ekki tekið ákvörðun um hvort uppfylli nauðsynleg skilyrði fyrir því að taka upp evruna kölluð aðildarríki með undanþágu.

Sautján aðildarríki Evrópusambandsins nota evruna sem gjaldmiðil og tilheyra þar með evrusvæðinu. Tvö aðildarríki, Bretland og Danmörk, hafa formlega samið um varanlega undanþágu frá því að vera skuldbundin til að taka upp evruna. Eftir standa átta aðildarríki með undanþágu sem eru mislangt á veg komin með að uppfylla Maastricht-skilyrðin, sem öll ríki þurfa að fullnægja til að geta tekið upp evru sem gjaldmiðil. Skilyrðin lúta að meginþáttum efnahagsmála: verðbólgu, vöxtum, stöðugleika í gengismálum auk afkomu hins opinbera og skuldum þess. Þau eru:

Verðstöðugleiki. Verðbólga skal ekki vera meira en 1,5 prósentum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur ESB-löndum sem hafa hagstæðustu verðbólguþróunina.

Vaxtamunur. Nafnvextir langtímaskuldabréfa skulu ekki vera meira en tveimur prósentum hærri en langtímavextir í þeim þremur ESB-löndum sem hafa hagstæðustu verðbólguþróunina.

Stöðugleiki í gengismálum. Ríki skal hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM II) í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar. Gjaldmiðill ríkisins má ekki sveiflast um meira en ±15% í kringum það miðgildi sem ákvarðað er í ERM II.

Afkoma hins opinbera. Halli á rekstri hins opinbera má ekki vera meiri en sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Skuldir hins opinbera. Skuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en sem nemur 60% af VLF eða að skuldahlutfallið stefni nægilega hratt að því marki ef það er hærra en 60%.

Þátttaka í gengissamstarfi Evrópu er formlega séð valfrjáls og getur hafist hvenær sem er eftir að aðild hefst. Þó er ætlast til þess af aðildarríkjum sem ekki hafa samið um varanlega undanþágu að þau taki þátt í gengissamstarfinu á einhverjum tímapunkti.

Ákveði Íslendingar að ganga í Evrópusambandið munu þeir geta tekið upp evruna sem gjaldmiðil, að uppfylltum ofantöldum skilyrðum, og verður til þess ætlast af þeim.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×