Skoðun

Alþjóðadagur flóttamanna

Kristján Sturluson skrifar
Þvert á það sem margir halda leitar aðeins lítill hluti rúmlega 10 milljóna flóttamanna í heiminum hælis í Evrópu og aðeins brotabrot þeirra endar á Íslandi. Langflestir flóttamenn leita hælis í nágrannaríkjum heimaríkis. Þannig eru bara í Pakistan, Íran og Sýrlandi tæplega 3,5 milljónir flóttamanna. Þess er vert að minnast að ekki eru margir áratugir síðan flóttafólk flúði Evrópuríki í stórum stíl og hver segir að slíkt geti ekki gerst aftur.

Á sama tíma hafa hins vegar ríki Evrópusambandsins og fleiri Evrópuríki hert á aðgerðum til að koma í veg fyrir, stjórna og berjast gegn straumi flóttamanna til álfunnar. „Ólögleg“ leið er hins vegar því miður oft eina leið flóttamanna til Evrópu. Þeir eiga oft ekki eða fá ekki vegabréf frá stjórnvöldum í heimaríkinu og einnig er mjög ólíklegt eða ómögulegt fyrir flóttamenn að óska eftir vegabréfsáritun til að komast til Evrópuríkis til að sækja um hæli. Þeim yrði að öllum líkindum synjað.

Sá sem neyðist til að flýja heimaland sitt verður því oft að segja ósatt um tilgang ferðarinnar, verða sér úti um falsað vegabréf eða jafnvel að sigla yfir opið haf á lélegu fleyi í von um að ná landi. Allir kostirnir eru slæmir og sá síðasti að auki lífshættulegur. Þannig er talið að þúsundir karla, kvenna og barna drukkni árlega í Miðjarðarhafinu á leiðinni frá Norður-Afríku til Evrópu. Þeir sem neyðast til að nota fölsuð vegabréf eru síðan oft handteknir og sviptir frelsi sínu til lengri eða skemmri tíma við komuna til Evrópu fyrir það að nota neyðarúrræði til að bjarga sér frá ofsóknum eða öðrum hættulegum aðstæðum.

Þótt Ísland sé fámennt ríki getum við lagt okkar af mörkum, t.d. með því að tala fyrir því að opna löglega leið fyrir flóttafólk til Evrópu í leit að vernd og að bjóða hingað fleira flóttafólki en nú er gert í samvinnu við Flóttamannastofnun SÞ. Ísland ætti einnig að tryggja að flóttamenn séu ekki fangelsaðir fyrir að nota fölsuð vegabréf þegar þeir flýja ofsóknir eða stríðsátök.

Hérlendis hefur margt verið unnið til bóta í málefnum hælisleitenda. Meðferð hælisumsókna er hins vegar alltof löng og hana verður að stytta verulega án þess þó að hvikað verði frá gæðum. Stjórnvöld verða að tryggja að sá sem sækir um hæli fái skjóta og réttláta úrlausn á hælisumsókn og koma í veg fyrir að umsóknir liggi nánast óhreyfðar sökum skorts á starfsfólki. Slík töf leiðir til meiri kostnaðar fyrir ríkissjóð og ómældra þjáninga fyrir þann sem bíður. Meiri málshraði þýðir sparnað fyrir hið opinbera og um leið mannúðlegri meðferð.




Skoðun

Sjá meira


×