Skoðun

Sagan og efndirnar

Þorvaldur Jóhannsson skrifar
Margt hefur verið sagt og fært á prent um jarðgöng, forgangsröðun og þýðingu þeirra fyrir nærliggjandi byggðir landshluta og þjóðina síðustu árin. Skoðanir og áherslur eru mismunandi og fara þá ekki alltaf saman eftir því hvar í landshlutum einstaklingar búa sem þær setja fram. Eitt eru menn þó sammála um og það er að jarðgöng í gegnum fjöll við t.d. þéttbýli sem losa umferð yfir erfiða fjallvegi eru nauðsynleg og þjóðhagslega hagkvæm. Jarðgangagerð á Íslandi þó ung sé hefur sýnt fram á að svo er.

Eftirspurn eftir nýjum jarðgöngum er meiri á Íslandi en framboðið og því þarf að huga vel að öllum aðstæðum, skoða söguna og gæta réttlætis í umræðu og athöfnum á leiðinni að niðurstöðu þegar kemur að forgangsröðun. Á það finnst mér lengi hafa skort.

Undirritaður er mikill áhugamaður um jarðgangagerð – ég hef fylgst vel með umræðu og skrifum og var hér áður fyrr nátengdur og þátttakandi í ýmsum vinnuhópum og nefndum sem fjölluðu um hana, sérstaklega varðandi Austurland. Var m.a. þáttakandi í sögulegri ferð sveitarstjórnarmanna Vestfirðinga og Austfirðinga ásamt fulltrúum Vegagerðar og Byggðastofnunar til Færeyja 1986, sem farin var til að kynna sér sérstaklega og skoða jarðgangagerð frænda okkar þar í landi. Að lokinni þeirri ferð var gert sögulegt „heiðursmannasamkomulag“ sveitarstjórnarmanna sem kvað á um að Vestfirðingar og Austfirðingar gerðu með sér samkomulag um að standa saman og styðja hver annan í baráttunni fyrir jarðgangagerð í landshlutunum. „Vestfjarðagöng (Botnsheiði og Breiðdalsheiði) væru næstu göng og strax í kjölfarið Austfjarðagöng (Fjarðarheiði og Oddskarð).“ Vestfirðingar og Austfirðingar og margir áhugamenn um vegagerð, sem ég þekki til, hafa horft til vilja samkomulagsins og virt.

Minnisstæð er ráðstefnan „Byrjum að bora“ sem haldin var á Seyðisfirði 28. maí 1988. Samgönguráðherrar seinni ára – sumir, ekki allir – hafa lítið gert með samkomulagið og bent m.a. á að svona samþykktir, þó að bak við þær standi heiðursmenn heilla landshluta, binda ekki hendur ráðherra. Reynslan sýnir að það er víst rétt. Í skrifum nokkurra einstaklinga um jarðgöng og forgangsröðun þeirra nú nýverið er vitnað í þetta samkomulag svo það virðist lifa og er það vel. Ef sagan, og síðan efndirnar, er skoðuð og sett í samhengi þá eru staðreyndirnar þessar. Skýrsla Nefndar um jarðgangaáætlun 1987 (1), sem síðan var samþykkt og fylgt eftir með fjárveitingum og í vegaáætlun (2) og langtímaáætlun (3) næstu ára, lagði til að þau byggðarlög sem tengjast um eftirtalda fjallvegi eigi að hafa forgang við jarðgangagerð og röð verkefna þannig: 1. Ólafsfjarðarmúli, 2. Botnsheiði og Breiðdalsheiði og 3. Fjarðarheiði og Oddskarð. Fjárveitingar til Austfjarðaganga voru á vegaáætlun allt frá 1989 og sérstaklega tilgreint að þar sé miðað við göng sem leysi vetrareinangrun Seyðisfjarðar og Norðfjarðar (4).

Að loknum greiðslum við Vestfjarðagöng (1998) átti að hefja framkvæmdir við Austfjarðagöng. Framkvæmdir við Ólafsfjarðarmúla hófust 1988 og lauk 1990 og við Breiðdals- og Botnsheiði á Vestfjörðum 1991-1995. Ekkert bólar enn árið 2012 á framkvæmdum á Fjarðarheiði og í Oddskarði. Fjarðarheiðargöng virðast alveg hafa gleymst og tröllum týnd en Oddskarðsgöng eru í gildandi samgönguáætlun 2009-2012. Þar er nær allt klárt til að byrja að bora en þá bregður svo við að ekki á að standa við að hefja þar framkvæmdir eins og gildandi samgönguáætlun kveður skýrt á um.

Við Austfirðingar erum ekki sáttir við það hik og þrýstum því ákveðið á stjórnvöld um að endurskoða ákvörðun sína og hefjast nú þegar handa við göngin eins og skrifað stendur. Á eftir Oddskarðsgöngum á Austurlandi er gert ráð fyrir (í gildandi áætlun) að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng á Vestfjörðum. Heiðursmannasamkomulagið er því lifandi. Er þá ekki næst komið að Fjarðarheiðargöngum á Austurlandi? Eða eiga þau að bíða enn um sinn? Ef svo er þá er spurt af hverju?




Skoðun

Sjá meira


×