Skoðun

Virða skal börn!

Margrét María Sigurðardóttir skrifar
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna markaði tímamót fyrir margar sakir. Enginn alþjóðlegur samningur hefur notið viðlíka stuðnings. Sáttmálinn boðar byltingarkennda sýn á réttindi og stöðu barna í samfélaginu en einkunnarorð sáttmálans eru vernd, umönnun og þátttaka. Börn eru samkvæmt Barnasáttmálanum virkir þátttakendur í samfélaginu og eiga einstaklingsbundin réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Börn hafa rétt á að tjá sig um mál er þau varða og allir sem bera ábyrgð á þeim eiga að hlusta á þau og taka tillit til þeirra eftir aldri og þroska.

Mikill velvilji hefur komið fram hjá íslenskum stjórnvöldum hvað réttindi barna varðar. Sem dæmi má nefna að í mars 2009 var samþykkt þingsályktun um að lögfesta hann og hefur frumvarp þessa efnis verið birt. Málið hefur þó tafist vegna fyrirvara íslenska ríkisins við c. lið 37. gr. Barnasáttmálans sem fjallar um aðskilnað barna frá fullorðnum í fangelsi. Ítrekað hefur verið skorað á íslenska ríkið að aflétta þessum fyrirvara. Norska ríkið er með samskonar fyrirvara við greinina en þrátt fyrir það hefur sáttmálinn verið lögfestur þar í landi. Umboðsmaður barna hvetur því stjórnvöld til að lögfesta Barnasáttmálann.

En þrátt fyrir að enn sé ekki búið að lögfesta sáttmálann mættum við gera miklu betur í því að innleiða hann þannig að hann verði virkt tæki í allri vinnu með börnum og við ákvarðanatöku sem varðar börn, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Til að svo verði þarf að stórauka fræðslu um sáttmálann og þann hugsunarhátt sem hann boðar þannig að þeir sem bera ábyrgð á börnum á einn eða annan hátt sjái tengingu milli starfs síns, uppeldishlutverksins og réttinda barna. Málefni barna snerta öll svið samfélagsins; heilbrigðismál, menntamál, skipulagsmál, umhverfismál, fjármál, markaðsmál, atvinnumál og margt fleira.

Umboðsmaður barna telur að við getum lært mikið um innleiðingu Barnasáttmálans af nágrönnum okkar á Norðurlöndunum. Á morgun, þriðjudag, verður haldin málstofa þar sem fulltrúar norrænna systurstofnana umboðsmanns munu ræða innleiðingu sáttmálans í sínum löndum. Sjá nánar á www.barn.is.




Skoðun

Sjá meira


×