Skoðun

Háskólasjúkrahús - Hvað er það?

Guðrún Bryndís Karlsdóttir skrifar
Læknarnir Jóhannes Gunnarsson, Ólafur Baldursson og Kristján Erlendsson hafa í aðsendum greinum sínum ekki svarað spurningu Sighvats Björgvinssonar um hvað háskólasjúkrahús er, því geri ég það hér með.

KennslusjúkrahúsLandspítalinn var fram til ársins 2007 kennslusjúkrahús með vísindastarfsemi í tengslum við háskólana í Reykjavík og Akureyri, Íslenska erfðagreiningu, Hjartavernd o.fl. og takmarkaðist við umsvif starfseminnar og stærð samfélagsins sem það þjónustar. Þessi starfsemi er í fullu samræmi við það sem þekkist erlendis. Kennslusjúkrahús hefur m.a. það hlutverk að bjóða upp á verklegt nám í heilbrigðisfögum, ásamt framhaldsmenntun og rannsóknum, sem tekur mið af stærð og starfsemi sjúkrahússins. Í þessu umhverfi skapaðist sá árangur í vísindastarfsemi sem læknarnir lýsa í greinum sínum.

HáskólasjúkrahúsEftir því sem kennslusjúkrahúsin stækka, oftar en ekki með sameiningu sjúkrahúsa, vex starfsemi og þjónustusvæði þeirra upp í það að vera háskólasjúkrahús. Munurinn á kennslusjúkrahúsi og háskólasjúkrahúsi er töluverður, bæði hvað varðar kostnað og starfsemi. Þar eru t.d. stundaðar rannsóknir, rannsóknir byggja á tilraunum og út frá tilraunum eru síðan þróaðar aðferðir.

Eins og kemur fram í grein þeirra þjónustar háskólasjúkrahús a.m.k. eina milljón íbúa, það er ástæða fyrir því - því sjúkdómar eru misalgengir, yfirleitt er fjöldi sjúkdómstilfella metinn á hverja 10.000 eða 100.000 íbúa fyrir algengustu sjúkdómana, en á hverja milljón íbúa fyrir sjaldgæfa sjúkdóma. Framhaldsnám lækna byggir á því að þeir kynnist nægum fjölda sjúkdómstilfella til þess að öðlast sérhæfingu. Fjöldi Íslendinga er einfaldlega ekki nægur til að uppfylla skilyrði fyrir framhaldsmenntun lækna. Fram til þessa hafa læknar í sérnámi getað tekið hluta af framhaldsnámi í sérgreinalækningum á Landspítalanun, enda takmarkast þjálfun við fjölda sjúklinga. Helsti styrkur íslensks heilbrigðiskerfis hefur verið sú þekking sem læknar koma með úr öllum bestu háskólum heims – en með því að takmarka sérnám þeirra við Ísland má búast við því að kerfið veikist til muna.

Fjölgun sérgreinaFjölgun sérgreina þýðir aukinn tækjabúnað og fjölgun lækna og annarra heilbrigðisstétta með sérmenntun í viðkomandi sérgrein. Sem dæmi má nefna PET-skanna sem hluta af tækjabúnaði nýs háskólasjúkrahúss, m.v. breskar tölur má búast við að tækið sjálft kosti a.m.k. 800 milljónir og rekstur þess á ári um 200 milljónir, auk mannskapsins sem þarf í kringum tækið. Yfirleitt tekur um tvö ár að setja tækið upp og stilla það.

Í Bretlandi búa um 62 milljónir íbúa, þar eru innan við 20 tæki, þ.e. eitt tæki á hverjar 3 milljónir íbúa. Það má því velta fyrir sér hversu vel eða illa slíkt tæki nýtist 300 þúsundum íbúa - ég tek sérstaklega fram að ég er aðeins að velta fyrir mér kostnaði, siðfræðin í þessu öllu saman er annar handleggur, bæði hvað varðar hvort og hvernig á að bjóða upp á sömu þjónustu og það sem gerist best í heiminum og því með hvaða hætti aðferðir í læknisfræði eru þróaðar.

Háskólasjúkrahús með lagasetningu AlþingisEftir sameiningu Lsp og Bsp byrjuðu starfsmenn sameinaðs spítala að kalla hann Landspítali - háskólasjúkrahús, og þegar þingmenn samþykktu lög um að Landspítali yrði háskólasjúkrahús á því merka ári 2007 má velta fyrir sér hvaða upplýsingar þeir höfðu til að taka slíka ákvörðun. Ólafur og Kristján lýsa lögunum sem ramma utan um starfsemi spítalans og að þau séu viðurkenning Alþingis á því starfi sem hefur þróast á Landspítalanum og Jóhannes bendir á að „Háskólasjúkrahús fjallar fyrst og fremst um afstöðu og getu starfsmanna og vilja stjórnenda til þekkingaröflunar og þekkingarmiðlunar."

Hjarta- og krabbameinslækningarÍ grein Ólafs og Kristjáns eru hjarta- og krabbameinslækningar teknar sem dæmi, en þessi þjónusta er almennt ekki einskorðuð við háskólasjúkrahús og var stunduð hér á landi fyrir sameiningu Lsp og Bsp, en kostnaðar- og áhættusöm þróunarstarfsemi fer fram innan háskólasjúkrahúsa. Þeir benda jafnframt á að „ástand" geti skapast í náinni framtíð ef ekki verði byggður nýr háskólaspítali og að það „ástand" yrði líklega þannig að spurningar um önnur sjúkrahús á landinu yrðu með öllu óþarfar – það er full ástæða að þeir skýri fyrir landsmönnum í hverju þetta „ástand" sem þeir hóta felst.

Þverfagleg teymisvinna milli stofnana hefur farið fram í formi farandsérfræðinga, símtala og með öðrum samskiptaleiðum. Endurskipulagning heilbrigðiskerfisins undanfarin ár hefur miðað að því að standa vörð um starfsemi LSH, m.a. með fjárlagagerð. Um nýtt háskólasjúkrahús hefur náðst þverpólítísk samstaða HÍ, LSH og stjórnmálamanna, en það gleymdist að spítalar eru byggðir af samfélaginu vegna þess að fólk veikist. Hefur náðst samfélagssátt um endurskipulagningu heilbrigðisþjónustu vegna áforma um nýtt háskólasjúkrahús?

Heilbrigðiskerfi lítillar eyþjóðar hefur ekki staðið eitt og sér hingað til, en háskólasjúkrahús getur einangrað þekkingu og þjónustu, sem hefur verið veitt í góðri þverfaglegri samvinnu LSH við innlend og erlend sjúkrahús hingað til – hvers vegna á að breyta því?


Tengdar fréttir

"Nýja háskólasjúkrahúsið – kjarni málsins“

Í aðsendri grein Sighvats Björgvinssonar þ. 21. maí 2012 greinir Sighvatur snöfurmannlega kjarnann frá tittlingaskít og aukaatriðum og dregur fram nokkrar spurningar sem hann telur að menn hafi látið hjá líða að ræða, þá sennilega vegna þess að menn treysti sér ekki í slíka umræðu.

Nýja háskólasjúkrahúsið – kjarni málsins

Umræðan um risabyggingu nýs spítala í miðbæ Reykjavíkur er hafin. Halldór Laxness orðaði umræðuhefð Íslendinga á þá leið, að þeir deildu helst um tittlingaskít og aukaatriði en setti gjarna hljóða þegar komið væri að kjarna máls. Og hver er kjarni málsins?

Nútímalegt sjúkrahús – hvað þarf til?

Stórstígar breytingar eru á starfsemi sjúkrahúsa frá ári til árs. Miklar framfarir hafa undanfarið orðið í rannsóknum og meðferð sjúklinga, sem margar hverjar fela í sér nýjar tæknilausnir. Þær þjóðir sem vilja bjóða sjúklingum góða þjónustu standa því frammi fyrir áskorunum um að reisa nýjar byggingar sem hæfa nútímalegri sjúkrahússtarfsemi. Nýbygging Landspítala við Hringbraut snýst um að íslensk sjúkrahúsþjónusta haldi takti við þróun þekkingar og tækni.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×