Skoðun

Boðið upp í dansinn

Sverrir Hermannsson skrifar
Úr þessum penna hefir margsinnis dropið, að sagnfræðingar framtíðar muni dæma harðast allra stjórnmálamanna þá, sem ríktu í aðdraganda og í hruninu sjálfu, þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson; þeim næst ötulustu undirmenn þeirra og leiguliða, sem þeir mötuðu aðallega með þjóðareigninni, fiskinum í hafinu.

Maður spyr mann um upphaf hrunsins og orsakir. Hvorutveggja er að finna hjá landsstjórn þeirri, sem þá ríkti á landinu. Sú ríkisstjórn gaf vinum sínum lungann úr þjóðareign með úthlutun fiskifangs til vildarmanna – ókeypis.

Varnarmenn óstjórnar eiga til að benda á auðlindagjald, sem lagt var á um aldamótin í kjölfar Auðlindanefndar, sem sett var á laggirnar, hverrar niðurstaða virtist öll unnin eftir fyrirsögn LÍÚ-forystu. Auk þess sem valdhafar léttu meiri gjöldum af útgerð en sem nam hinu svokallaða auðlindagjaldi.

Haft er hátt um það á alþingi að mikillar aðgæzlu sé þörf í fjármálum. Meðan á fjármálaaustrinum stóð, hversu oft var ráðamönnum ekki bent á hina varhugaverðu fjármálaþróun; hina gegndarlausu eyðslu langt umfram fjárlög, sem nam um 20% – tuttugu af hundraði – árlega, umfram verðlagsþróun, alla þeirra stjórnartíð?

Hvers vegna?

Vegna þess að ráðamenn voru sem mest að vinna við að kaupa sér atkvæði í gæluverkefnum umfram nauðsyn og til gottgjörelsis einkavinunum.

Þeir stunduðu „sósíalisma andskotans“, sem Vilmundur heitinn Jónsson, fyrrv. landlæknir, nefndi svo eftir þeirri kennisetningu vinskaparins, að ríkinu bæri að sjá um fyrirtæki sem tap væri á, en önnur yrðu í umsjá og á arðgjöf einkavina valdhafa.

Samkvæmt þeirri kennisetningu var Landssíminn seldur, einhver dropsamasta mjólkurkýr ríkissjóðs; og síðan hvert stórfyrirtækið af öðru, og eru ríkisbankarnir frægustu bitbeinin. Nú er í fréttum, að þeir á alþingi vilji forvitnast um þær makalausu sölur.

Betra er seint en aldrei, en ætli því verði ekki öllu drepið á dreif, af þeim sem hin raunverulegu völd hafa – peningafurstunum? Þeim hinum sömu sem ráða skipan fiskveiðimála og stjórnmálamenn knékrjúpa fyrir?

Dæmi af einkavæðingu: Halldór Ásgrímsson gaf Samherja, við úthlutun kvóta, aukreitis 4.400 tonn af þorski í upphafi Hrunadans. Þegar kvótaverð var sem hæst lagði sú gjöf sig á rúma 18 – átján – milljarða króna. Ágústi Einarssyni voru þá gefin 2.900 tonn, sem í sama máta gerðu í blóðið sitt rúma 12 – tólf – milljarða króna.

Og áfram dunar dansinn. Margur hinna nýju dansherra stígur sporin í góðum takti við LÍÚ-greifana.


Tengdar fréttir

Norðurlönd á norðurskautssvæðinu

Norðurskautssvæðin hafa flust nær miðju heimsstjórnmálanna og munu fá aukið vægi í framtíðinni. Saman geta norrænu ríkin haft áhrif á þróun norðurskautssvæðisins og unnið á jákvæðan hátt í Norðurskautsráðinu. Við í Norðurlandaráði lýsum því eftir sameiginlegri norrænni stefnu sem getur verið undirstaða uppbyggilegrar norrænnar samvinnu.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×