Skoðun

Lína lifir!

Dagný Kristjánsdóttir skrifar
Á fundi sínum í Ósló 26. apríl sl. samþykktu norrænu mennta- og menningarmálaráðherrarnir að stofna Barnabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs sem væru hliðstæð öðrum menningarverðlaunum ráðsins.

Litlir lesendur – litlar bókmenntir?

Oft heyrir maður fordóma og fáfræði um bókmenntir fyrir börn eins og menn yfirfæri æsku og sakleysi barna yfir á bækur sem fullorðnir skrifa fyrir þau og telji þar með að barnabækur séu bókmenntalega smærri í sniðum en fullorðinsbækur. Eða að barnabækur séu alltaf að kenna lesendum að reima skóna sína og harka af sér hjá tannlækninum.

Barnabækur eru sérstakt bókmenntasvið þar sem úrvalshöfundar skrifa bækur sem er vandasamara en að skrifa fullorðinsbækur í því, að höfundarnir verða að vera meðvitaðir um aldur lesenda. Barnabókahöfundur skrifar alltaf á minnst tveimur sviðum, fyrir ungan lesanda og fyrir þann fullorðna lesanda sem barnið á eftir að verða. Það hefur verið sagt að allar góðar barnabækur séu jafnframt góðar fullorðinsbækur en ekki allar fullorðinsbækur góðar barnabækur.

Ég fullyrði að allir Íslendingar þekki og elski bækur Astrid Lindgren og Lína Langsokkur er virt og dáð af allt frá leikskólabörnum til menntamálaráðherra okkar sem hefur skrifað um hana lærða grein. Meðan Astrid lifði bentu aðdáendur hennar Sænsku akademíunni aftur og aftur á að enginn norrænn rithöfundur væri virtari og elskaðri – en án árangurs. En nú skal þessari vanvirðingu lokið: Lína, Emil, Ronja og Snúður fá nú uppreisn æru!

Við þekkjum barnabækur hver annars?

Við þekkjum og elskum barnabækur hinna norrænu ríkja. Er það ekki? Kynslóðir íslenskra barna hafa bundið ástfóstri við Lilla klifurmús og Múmínálfana og Palla sem var einn í heiminum og svona mætti lengi telja. Þeir eru heldur ekki margir sem ekki vita hver Einar Áskell er, en haldið var upp á fertugsafmæli hans í Svíþjóð 8. maí sl. Norrænu barnabækurnar sem þjóta efst á vinsældalista okkar eru sem sagt orðnar miðaldra. Hver getur hins vegar sagt til um hvað er að gerast best og skemmtilegast í norrænum barnabókum í dag?

Síðasta ár voru gefnar út 188 barnabækur alls á Íslandi. Voru 69 af þeim frumsamdar íslenskar barnabækur, hinar voru þýðingar. Af 119 þýddum bókum voru 85 barnabækur þýddar úr ensku, níu úr Norðurlandamálunum (fimm úr sænsku, tvær úr dönsku, ein úr norsku og ein úr finnsku). Hlutfallið er svipað í hinum norrænu ríkjunum. Úr hópi okkar allrabestu íslensku barnabóka sýnist mér að telja megi þýddar og útgefnar bækur á Norðurlöndunum á fingrum annarrar handar.

Norræn börn eru heimsbörn í alþjóðavæddu fjölmiðlaumhverfi – en þau eru líka fædd inn í norrænt samhengi, landfræðilega og menningarlega, og þau bera þess vott að Norðurlöndin hugsa um og skilja bernskuna um margt öðruvísi en aðrir menningarheimar. Norræn börn geta lært mikið hvert af öðru og hvert um annað með hjálp barnabókanna og uppalendur fengið þar valkost við yfirþyrmandi markaðsyfirburði Disneysamsteypunnar og annarra ensk-amerískra afþreyingarmiðla. Norræn samheldni framtíðarinnar hefst hjá börnunum.

Ekkert má gefa eftir

Ég held að Norrænu barnabókaverðlaunin eigi eftir að skipta miklu máli. Þau verða viðurkenning á því besta sem er skrifað og skapað á sviðinu á Norðurlöndum. Það verður að gera kröfur til fagþekkingar dómnefndarmanna. Það verður að búa til rýnihópa barna og síðast en ekki síst samþykktu ráðherrarnir að leggja fjármuni í hliðaraðgerðir til þess að kynna hinar tilnefndu bækur, höfunda þeirra og styrkja barnamenningu Norðurlandanna. Til þess verður að styrkja þýðingar og útgáfu bókanna landa á milli því að bókaforlögin verða að fá trú á að það sé til einhvers að gefa bækurnar út.

Barnabókmenntaverðlaun Norræna ráðsins

Norrænu barnabókmenntaverðlaunin munu ekki ryðja barnabókmenntaverðlaunum Vestnorræna ráðsins úr sessi. Þau verðlaun voru stofnuð árið 1999 til að styrkja barna- og unglingabókmenntir á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum – landsvæði sem á margt sameiginlegt í atvinnulífi og menningarsögu.

Barnabókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins voru ótrúlega flott ákvörðun á sínum tíma. Þeim er ætlað að að tengja börn og menningu og veita viðurkenningu fyrir metnaðarfulla listræna vinnu í þeirra þágu. Verðlaunin eru vegleg, 60 þúsund danskar krónur, og hafa verið veitt fimm sinnum. Síðast fékk Gerður Kristný þau fyrir unglingabókina Garðinn. Bók Margrétar Örnólfsdóttur, Með heiminn í vasanum, var tilnefnd af Íslands hálfu til verðlauna í ár og verður verðlaununum úthlutað í ágúst.

Verðlaunuðu bækurnar eru þýddar á öll þrjú tungumálin en það þýðir ekki þar með að þær séu gefnar út. Það þýðir heldur ekki að fjölmiðlar sýni þeim áhuga eða lyfti þeim upp eins og vert væri. Því viljum við gjarnan breyta um leið og við hvetjum þingmenn þjóðþinganna til að samþykkja þessa viturlegu ákvörðun menntamálaráðherranna og gera hana að veruleika. Ég held að þeir hljóti að gera það.




Skoðun

Sjá meira


×