Erlent

Harry Bretaprins verðlaunaður

Harry Bretaprins ásamt Colin Powell sem afhenti honum verðlaunin. fréttablaðið/AP
Harry Bretaprins ásamt Colin Powell sem afhenti honum verðlaunin. fréttablaðið/AP
Harry Bretaprins var verðlaunaður fyrir góðgerðastarf sitt í þágu særðra hermanna í kvöldverðarboði í Washington. Þetta var fyrsta heimsókn Harrys til bandarísku höfuðborgarinnar.

Hinn 27 ára Harry er þyrluflugmaður í breska hernum og starfaði í tíu vikur í Afganistan á árunum 2007 til 2008. Við athöfnina í Washington sagði hann að margir karlmenn og konur úr hernum hefðu þurft að borga dýru verði fyrir að tryggja almenningi öryggi og standa vörð um frelsi hans. „Þau eiga það inni hjá okkur að við styðjum við bakið á þeim og fjölskyldum þeirra þegar þau eiga um sárt að binda. Vonandi öðlast þau á endanum vonina á nýjan leik og sjálfstraust til að blómstra,“ sagði prinsinn. „Fyrir þetta fólk hefst hinn raunverulegi bardagi eftir að byssurnar hafa þagnað.“

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, veitti verðlaunin. Hann sló á létta strengi og sagði meðalaldur þeirra sem sækja þennan árlega kvöldverð hafa lækkað um 25 ár. „Jafnmargar ungar og einhleypar konur hafa aldrei áður sótt kvöldverðinn.“- fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×