Skoðun

Álfar út um allt

Guðmundur Rúnar Árnason skrifar
Það er stundum talað um að í Hafnarfirði séu fleiri álfar en annars staðar á landinu. Ekki ætla ég að kveða upp úr um það, en veit þó að í Hafnarfirði er ákjósanlegt að búa, hvort sem um er að ræða álfa og huldufólk – eða mannfólk. Sjálfur hef ég aldrei séð lifandi álfa, en ég hef séð álfa sem hafa gefið öðrum líf.

Ég er auðvitað að tala um SÁÁ álfinn. Hann hefur á rúmum tuttugu árum skilað samtökunum á fimmta hundrað milljónum króna. Þeir fjármunir hafa farið í að byggja upp nýja þjónustu. Þannig var til dæmis unglingadeildin byggð á sínum tíma. Það er óhætt að fullyrða að hún hefur bjargað fjölmörgum mannslífum.

Áfengissýki hefur áhrif á fleiri en þann veika. Hún er fjölskyldusjúkdómur. Fjöldi þeirra fjölskyldna sem áfengissýkin hefur sundrað eða eitrað lífið hjá í gegnum tíðina, er gríðarlegur. Ég kann ekki tölfræðina í því sambandi, en allir þekkja einhvern sem kemur úr fjölskyldu sem alkóhólisminn hefur haft eyðileggjandi áhrif á. Það þori ég að fullyrða.

Núna stendur álfasala SÁÁ sem hæst. Ég hvet alla til að leggja sitt af mörkum til að gera líf margra barna og fjölskyldna betra. Meginverkefni álfsins á næstunni er að byggja upp sérstaka barna- og fjölskyldudeild, þar sem áherslan verður á endurreisn fjölskyldna sem eru í vanda vegna áfengis- og vímuefnasýki.

Álfurinn er hvorki hávær né fyrirferðarmikill. Hann er aftur á móti til marks um hvað hægt er að gera þegar margir leggjast á eitt. Margir litlir álfar lyfta Grettistaki.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×