Skoðun

Best í heimi

Heiða Sigurjónsdóttir skrifar
Þegar ég reyndi að sigrast á nánast óyfirstíganlegu þvottafjalli heima hjá mér fór ég að hugsa. Ég er ótrúlega heppin. Þrátt fyrir allt er ég í besta starfinu, ég er leikskólakennari.

Þegar ég horfi framhjá launum og aðbúnaði og lít að kjarna málsins fullyrði ég að mitt starf er best í heimi, meira að segja betra í heimi en Ísland. Ég fæ að hlúa að og eiga samskipti við 18 dásamleg börn, frábæru foreldrana þeirra og yndislega starfsfólkið mitt fimm daga vikunnar.

Það er ástæða fyrir því að ég kalla þessi börn gjarnan börnin mín. Mér finnst ég eiga pínulítið í hverju og einu þeirra. Ég veit hvaða börn vilja alltaf vera á tásunum og ég veit hvaða börn vilja alltaf sjá fiskfatið til að fullvissa sig um að maturinn sé búinn. Ég veit líka hvernig ég á að hugga börnin og ná til þeirra, þau vilja nefnilega ekki öll sömu nálgun. Ég þekki þau og þau þekkja mig. Þetta eru forréttindi.

Í síðustu viku var opið hús í leikskólanum mínum. Ég fyllist alltaf gríðarlegu stolti og er ótrúlega meyr þegar ég horfi á flottu börnin mín sýna foreldrum og öðrum gestum þeirra verkin og ljósmyndirnar sem tilheyra þeim eftir veturinn. Við erum nefnilega flott. Við vinnum flott starf, börnin mín, ég og starfsfólkið mitt.

Um daginn sagði einn lítill drengur við mig: „Heiða, ég elska alltaf þig“.

Er hægt að biðja um betra starf?

Ég held ekki.




Skoðun

Sjá meira


×