Erlent

Lofar að afturkalla niðurskurð

Alexis Tsipras Fáir möguleikar á stjórnarmyndun eru í stöðunni.
Alexis Tsipras Fáir möguleikar á stjórnarmyndun eru í stöðunni. nordicphotos/AFp
„Þetta er söguleg stund fyrir vinstri menn og hreyfingu almennings og mikil ábyrgð lögð á mínar herðar,“ segir Alexis Tsipras, leiðtogi SYRIZA, bandalags róttækra vinstri flokka í Grikklandi.

Hann hófst í gær handa við að reyna myndun vinstristjórnar, sem myndi afturkalla ströng aðhalds-áform fyrri stjórnar sósíalistaflokksins PASOK og íhaldsflokksins Nýs lýðræðis.

„Það er ekki nokkur möguleiki að við laumum aftur inn því sem gríska þjóðin henti út,“ segir Tsipras.

Á hinn bóginn er ekki heldur auðvelt að sjá hvaða möguleika hann á til að mynda meirihlutastjórn á nýkjörnu þjóðþingi.

Flokkur hans er með 52 þingsæti en til að mynda meirihluta á þinginu þarf að minnsta kosti 151 þingmann. Lýðræðislegi vinstri flokkurinn hefur lýst yfir stuðningi við Tsipras, en sá flokkur er aðeins með 19 þingmenn. Fáist sósíalistaflokkurinn PASOK til að taka þátt í stjórninni yrðu þingmennirnir aðeins 112.

Leiðtogar Þýskalands og fleiri evruríkja hafa ekki tekið í mál neinar breytingar á skilmálum fjárhagsaðstoðar.

Tsipras hefur ekki nema þrjá daga til að mynda ríkisstjórn.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×