Erlent

Fylgi nýnasista vex hratt

Þrátt fyrir augljós áhrif frá myndmáli þýskra nasista vilja liðsmenn Gylltrar dögunar ekki láta kalla sig nýnasista. Fréttablaðið/AP
Þrátt fyrir augljós áhrif frá myndmáli þýskra nasista vilja liðsmenn Gylltrar dögunar ekki láta kalla sig nýnasista. Fréttablaðið/AP
Samkvæmt skoðanakönnunum gætu þingkosningarnar í Grikklandi, sem haldnar verða um næstu helgi, skilað Gylltri dögun, litlum flokki þjóðernisöfgamanna, um það bil fimm prósentum atkvæða. Það er vel yfir þriggja prósenta markinu, sem þarf til að komast á þing.

Flokkurinn var stofnaður fyrir nærri tveimur áratugum en hefur dregið að sér fylgi í efnahagsþrengingunum, sem hafa kostað fjölda fólks atvinnu og eftirlaun.

Margir kjósendur virðast ætla að forðast hófsamari flokka sem hafa verið við stjórnvölinn síðustu árin, hvort heldur þeir eru á vinstri eða hægri kantinum. Fólki finnst það svikið og leitar heldur til jaðarflokka sem hafa uppi stóryrði og boða róttækar breytingar.

„Gyllt dögun er á móti þessu spillta valdakerfi. Allir þeir sem bera ábyrgð á sóun almannafjár verða að fara í fangelsi. Það er forgangsmál okkar,“ segir Ilias Kasidiaris, rúmlega þrítugur flokksfélagi sem var um skeið í sérsveit gríska hersins.

Félagar flokksins klæðast svörtu, bera fána sem minna á þýska nasista frá Hitlerstímanum og merki flokksins er greinilega ættað frá nasistum.

Samt neita þeir tengslum við þýska nasista, enda voru feður þeirra margra í andspyrnuhreyfingunni í Grikklandi og börðust gegn hernámi Þjóðverja.

„Við erum grískir þjóðernissinnar. Ekkert meira og ekkert minna en það,“ segir Kasidiaris.

Þeir hafa farið víða um land í kosningabaráttu sinni og heimsækja kaffihús og verslanir til að ræða við fólk. Þeir hafa safnað bæði matargjöfum og fötum til að afhenda fólki sem á í erfiðleikum.

Þeir lofa því að reka útlendinga úr landi og tryggja öryggi fólks gegn glæpamönnum. Meðal annars vilja þeir loka landamærunum með jarðsprengjubelti til að koma í veg fyrir straum ólöglegra innflytjenda til Grikklands frá nágrannaríkjunum. Innflytjendur hafa sumir orðið illa fyrir barðinu á þessum harðskeyttu þjóðernissinnum undanfarnar vikur og mánuði. Afleiðingarnar hefur meðal annars mátt sjá á sjúkrahúsum.

Mohammed, ungur maður frá Pakistan, liggur í sjúkrarúmi í Aþenu með brotið nef, umbúðir um höfuðið og hönd í gifsi. Á sunnudagskvöldið réðust 25 manns á Mohammed og félaga hans.

„Þeir spurðu bara hvaða landi við kæmum frá og fóru svo að berja okkur – með höndum og spýtum og járnstöng,“ segir Ahmad, félagi Mohammeds. Ahmad er ekki á sjúkrahúsi en meiddist engu að síður á höfði og höndum.

Þeir hafa ekki látið lögregluna vita af árásinni og vilja ekki koma fram í fjölmiðlum undir fullu nafni.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×