Lífið

Retro Stefson með lag í nýrri auglýsingu

„Það var mjög gaman að vera á „setti" og kynnast auglýsingageiranum," segir Unnsteinn Manuel Stefánsson, forsprakki Retro Stefson.

Nýtt lag með hljómsveitinni sem nefnist Kensho verður frumflutt í kvöld í auglýsingu fyrirtækisins Vodafone. Þar spila Unnsteinn og félagar lagið á snjallsíma og iPad.

„Við erum búin að vinna að því í fjögur ár," segir hann um nýja lagið. Það átti upphaflega að vera á fyrstu plötu sveitarinnar en ekki tókst að ljúka við það í tæka tíð og heldur ekki fyrir þá næstu sem kom út fyrir jólin 2010. Þess í stað verður það líkast til á þriðju plötunni sem er væntanleg í lok sumars eða snemma í haust.

Aðspurður segir Unnsteinn að vissulega hafi þau þurft að hugsa sig um áður en þau seldu lagið í auglýsinguna, enda hefur sveitin ekki gert svona lagað áður. „En svo eigum við heima á Íslandi þar sem annar hver maður er á gestalista og maður fær aldrei borgað fyrir neitt. Maður þarf líka að eiga fyrir salti í grautinn."

Eitt annað stórt fyrirtæki hafði áhuga á að nota lagið í aðra auglýsingu en á endanum hreppti Vodafone hnossið. Spurður hvort tilboðið frá þeim hafi verið gott segir Unnsteinn einfaldlega að það hafi verið fínt.

Retro Stefson ætlar að spila á að minnsta kosti tveimur erlendum tónlistarhátíðum á mánuði í sumar. Sveitin spilar á smærri hátíðum en í fyrra en á stærri sviðum og hjálpar þar til útgáfusamningur sem hún gerði við Universal. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.