Skoðun

Ábyrgðarkver

Reimar Pétursson skrifar
Út er komin bókin Ábyrgðarkver eftir Gunnlaug Jónsson sem fjallar um „bankahrun og lærdóminn um ábyrgð". Bókin er kærkomin viðbót við þau rit sem þegar hafa verið skrifuð um hugsanlegar orsakir efnahagshrunsins 2008.

Óskýrar orsakir og afleiðingarVandinn sem höfundar standa frammi í umfjöllun um þetta er sá, að oft og tíðum er vandasamt að greina á milli orsaka og afleiðingar. Höfundar hafa því oft lýst flóknu samspili ýmissa atburða, reynt að draga línur milli þeirra og þannig talið sig hafa fundið „orsakir" hrunsins. Eftir standa ringlaðir lesendur og eiga þann kost einan að láta álit sitt á einstaka mönnum eða atvikum ráða viðhorfi sínu, eins ófullnægjandi og það er.

Sannfærandi skýringBók Gunnlaugs er fyrsta bókin um hrunið sem rís undir því, að bjóða lesendum sannfærandi skýringu á orsökum hrunsins. Gunnlaugur greinir þetta af heiðarleika, einlægni og innsæi. Þá er greiningin svo einföld að Gunnlaugur þarf aldrei að fjalla um einstaka menn eða atvik. Viðhorf til þeirra trufla því lesandann aldrei.

Ábyrgð einstaklinga og trúin á stuðning ríkisinsGunnlaugur bendir á að ábyrgð einstaklinga á fjármálum sínum sé best fyrir komið hjá þeim sjálfum. Enginn banki geti tekið slíka ábyrgð yfir vegna freistnivanda. Þá geti ekkert opinbert eftirlit komið að sama gagni. Þrátt fyrir það hafi fólki um langt árabil verið talin trú um að treysta megi bönkum og að ríkið muni styðja þá sem einhvers konar lánveitandi til þrautavara lendi þeir í vanda. Með þessu sé ábyrgð af meðferð fjármuna fólks færð frá almenningi og fjárfestum til ríkisins. Bankarnir fái við þessar aðstæður mikil færi til áhættutöku. Almenningur og fjárfestar sofi á verðinum og opinbert eftirlit megni aldrei að koma í veg fyrir öll áföll.

Lærdómurinn um bankahruniðAf þessu dregur Gunnlaugur þann lærdóm að ríkisvaldið eigi að hafa minni afskipti af meðferð manna á fjármunum sínum. Ríkisvaldið eigi að forðast að kynda undir þeirri trú að það muni bjarga bönkum sem lenda í ógöngum. Fólk eigi að taka ábyrgð. Sé þetta gert eykst vald fólksins og vald banka og stjórnmálamanna minnkar. Afleiðingin sé síðan m.a. sú, að spilling minnki því án valds geti engin spilling þrifist.

Lærdómurinn um annaðSkrif Gunnlaugs eru síðan enn áhugaverðari fyrir það, að hann dregur ályktanir sem veita leiðsögn á ýmsum öðrum sviðum en bankamálum. Hann greinir þannig hvernig aukin ábyrgð einstaklinga getur leyst ýmis þjóðfélagsleg vandamál og jafnvel stuðlað að bótum í lífi lesandans sjálfs. Bók Gunnlaugs er því tímabært innlegg í þjóðfélagsumræðuna. Hún rís yfir það karp og þras sem vill trufla rökhugsun um vandamál líðandi stundar. Hún er því góður áttaviti. Það má óhikað skora á sem flesta að kynna sér hana.
Skoðun

Skoðun

Túlkun á tölum

Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.