Skoðun

Staða mönnunar lækna í heilsugæslunni og nýliðun

Gunnlaugur Sigurjónsson skrifar
Á Læknadögum í janúar síðastliðnum var haldið málþing um stöðu mönnunar lækna á Íslandi. Þar var meðal annars fjallað um stöðuna sem ríkir í mönnunarmálum heilsugæslunnar. Staðan er ekki góð og ef takast á að tryggja rekstur heilsugæslunnar á Íslandi þarf að grípa strax til aðgerða, meðal annars með því að gera heilsugæslulækningar að álitlegum kosti fyrir unga lækna.

Fastráðnir heilsugæslulæknar á Íslandi voru 188 þann 1. október 2011. Þar af voru 180 sérfræðingar í heimilislækningum. Fastráðnum heilsugæslulæknum hafði fækkað um fjóra á landinu frá ársbyrjun 2010. Ef aldurssamsetning sérfræðinga í heimilislækningum er skoðuð kemur í ljós að á aldursbilinu 36 til 45 ára eru 30 læknar eða þrír að meðaltali í hverjum árgangi. Ef aldursbilin 46 til 55 ára og 56 til 65 ára eru skoðuð kemur í ljós að um 70 einstaklingar eru í hvoru tíu ára aldursbili eða 7 læknar í hverjum árgangi að meðaltali. Af þessu er ljóst að nýliðun í röðum heimilislækna hefur verið mjög ábótavant á síðustu tíu árum en gera má ráð fyrir að læknar ljúki sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum fyrir 35 ára aldur.

Á næstu 10 árum munu 29% fastra lækna heilsugæslunnar ná sjötugsaldri og 45% ná sjötugsaldri á næstu 15 árum. Til að ná að halda í við brottfall úr stéttinni mun þurfa að útskrifa um sex til sjö nýja sérfræðinga í heimilislækningum á ári næstu 10 til 15 árin. Til að mæta fólksfjölgun í landinu mun þurfa einn til tvo nýja sérfræðinga á ári til viðbótar.

Á landsbyggðinni eru um 106 stöðugildi heilsugæslulækna. Í dag er fastráðið í innan við 80 þeirra og 62 stöðugildi eru setin af 68 sérfræðingum í heimilislækningum. Því má segja að það vanti um 40 heimilislækna á landsbyggðina ef manna á hana með sérfræðingum í faginu. Sömuleiðis er skortur á heimilislæknum á höfuðborgarsvæðinu en gera má ráð fyrir að um 15 til 20 þúsund höfuðborgarbúar séu án fasts heimilislæknis og auk þess eru sumir læknar með fleiri skráða skjólstæðinga en þeir ráða við að sinna. Ef gert er ráð fyrir að eðlilegt sé að hver heimilislæknir sinni 1.200 til 1.500 manns er skorturinn á höfuðborgarsvæðinu um 20 til 60 stöðugildi.

Ef það á að ná að halda í við brottfall úr stéttinni á næstu 10 árum og auk þess að ná að manna höfuðborgina og landsbyggðina með sérfræðingum í heimilislækningum mun þurfa allt að 18 nýja sérfræðinga á ári næstu 10 ár. Ef ná á sömu markmiðum á 15 árum mun þurfa um 15 nýja sérfræðinga á ári.

Fyrir nokkrum árum var sett upp metnaðarfullt sérnám í heimilislækningum hér á landi sem hefur skilað um það bil fjórum nýjum læknum á ári síðustu ár. Í átaki sem Velferðarráðuneytið og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafa meðal annars staðið að er nú stefnt að því að byggja upp sérnám sem miðar að því að átta læknar geti lokið námi í heimilislækningum á ári. Sérnámsáætlunin byggir á þriggja ára skipulögðum námsbrautum fyrir sérnámslækna. Svo er gert ráð fyrir að sérnámslæknarnir sæki sér menntun erlendis í þann tíma sem upp á vantar en lengd sérnámsins er að lágmarki fjögur og hálft ár. Ef þessi plön ganga eftir og þeir einstaklingar sem ljúka sérnámi skila sér allir heim að sérnámstímanum liðnum þá mun innan nokkurra ára takast að halda í við brottfall úr stéttinni en ekki mun takast að ná að vinna upp þann mikla skort sem orðinn er á heimilislæknum.

Flestir stjórnmálamenn sem að heilbrigðismálum hafa komið síðustu ár hafa rætt um mikilvægi heilsugæslunnar í heilbrigðiskerfi landsmanna og ófá loforðin hafa komið um styrkingu hennar. Hins vegar virðist svo vera að styrkingin snúi fyrst og fremst að öðrum þáttum heilsugæslunnar en þeim þar sem skórinn virkilega kreppir að, það er heilsugæslulækningunum. Aðrar meginstoðir heilsugæslunnar, svo sem ungbarnaeftirlit og mæðravernd, eru þannig vel starfandi víðast hvar og aðgengi fullnægjandi.

Höfða þarf til unglækna að velja sér starfsvettvang innan heilsugæslunnar. Eins er mikilvægt að ná til baka þeim fullmenntuðu heimilislæknum sem hætt hafa störfum og haldið utan á síðustu árum, þó fjöldi þeirra sé ekki mikill. Ef þetta á að takast þarf að fjölga rekstrarformum heilsugæslunnar og bjóða upp á meiri fjölbreytileika en nú er gert. Þau lönd þar sem unglæknar sækja sitt nám hafa að miklu leyti byggt heimilislækningarnar á sjálfstæðum rekstri heimilislæknanna sjálfra, svo sem Noregur og Danmörk, eða eru í vaxandi að mæli að taka það form upp í heilsugæslunni, svo sem Svíþjóð. Það er tími til kominn að Íslendingar skoði aukna fjölbreytni í rekstri heilsugæslulækninga í von um að nýliðun glæðist, að framþróun verði í faginu, að aðgengi að þjónustunni verði betra og hver Íslendingur eignist sinn fasta heimilislækni sem hefur tíma og getu til að sinna honum varðandi forvarnir og meðhöndlun sjúkdóma.




Skoðun

Sjá meira


×