Lífið

Íslendingar eru nammisjúkir

Alfreð Chiarolanzio segir viðtökur Nammibarsins hafa verið framar vonum enda séu Íslendingar nammisjúkir.
Alfreð Chiarolanzio segir viðtökur Nammibarsins hafa verið framar vonum enda séu Íslendingar nammisjúkir. Fréttablaðið/anton
„Ég vildi opna búð sem fær viðskiptavininn til að segja vá þegar hann labbar inn. Hingað til hafa flestir sagt vá þegar þeir ganga inn um dyrnar,“ segir Alfreð Chiarolanzio eigandi nýju nammibúðarinnar Nammibarinn á Laugavegi.

Nammibarinn státar af alls 430 nammiboxum og telur Ólafur að hann bjóði upp á mesta úrval sælgætis á Íslandi. „Ég held að þetta sé stærsti nammibar á Íslandi og ég hef fengið að heyra að við séum ekki með nógu stóra poka til rúma allar tegundirnar,“ segir Alfreð en hann hefur lengi langað að opna búð sem býður einungis upp á sælgæti. „Ég hef verið að vinna í nammibransanum lengi og fannst vanta búð þar sem það er hreinlega upplifun fyrir viðskiptavininn að versla.“

Nammibarinn er opinn frá 11 til miðnættis á virkum dögum en til tvö á nóttunni um helgar og hafa viðtökurnar verið framar vonum síðan verslunin opnaði fyrir rúmri viku. „Íslendingar eru náttúrulega nammisjúkir og það var frábær stemning hérna síðustu helgi. Það eru ekki bara djammarar í miðbænum á kvöldin um helgar,“ segir Alfreð sem ætlar sér stóra hluti með Nammibarinn í framtíðinni. „Búðin á Laugavegi er bara sú fyrsta af mörgum enda er greinilegt að það er markaður fyrir svona búð.“

Nokkrar flökkusögur hafa verið á sveimi um óhreinlæti nammiboxa í verslunum en Alfreð vill meina að það séu allt ýkjur en hann leggur hins vegar mikið upp úr hreinlæti í búðinni. „Hver og einn fær sína eigin skeið með pokanum sem viðskiptavinurinn skilar til okkar þegar hann er búinn að versla. Við hugsum mikið um hreinlæti.“- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.