Lífið

Útrásarvíkingar urðu að blásturshljóðfærum

Örn Alexander Ámundason fékk tækifæri til að sýna verk sitt, Kreppa, á opnun The Armory Show í New York.
Örn Alexander Ámundason fékk tækifæri til að sýna verk sitt, Kreppa, á opnun The Armory Show í New York.
Örn Alexander Ámundason, nýútskrifaður listamaður frá Listaháskólanum í Malmö, var með verk á opnun The Armory Show í New York. Sýningin er svonefnd listamessa þar sem gallerí setja upp sýningar í þeim tilgangi að kynna starfsemi sína og selja verk. Í ár var lögð sérstök áhersla á Norræna list og tóku meðal annars listamennirnir Shoplifter, Ragnar Kjartansson og Björk þátt í sýningunni.

Verk Arnar Alexanders nefnist Kreppa og er tónverk sem hann samdi árið 2009 og er ætlað þrettán hljóðfærum.

„Ég valdi þrettán einstaklinga sem mér þóttu koma sérstaklega við sögu efnahagskreppunnar og gerði hvern einstakling að ákveðnu hljóðfæri. Þannig urðu stjórmálamenn strengir, útrásarvíkarnir urðu að blásturshljóðfærum, bankar og fjölmiðlar urðu lúðrar og mótmælendur urðu slagverkshljóðfæri, sem oft eru nefnd hjarta hljómsveitar. Þannig breytti ég til dæmis rödd Davíðs Oddssonar í selló á meðan rödd Jóns Ásgeirs varð að flautu," útskýrir Örn.

Verkið var flutt í tvígang á miðvikudaginn var og voru móttökurnar jákvæðar að sögn Arnar. Fjölmiðlar hafa einnig sýnt verkinu áhuga og skrifuðu Art in America, Artfagcity.com og Artinfo.com umsagnir um verkið.

Örn verður í New York fram á fimmtudag og heldur þá aftur til Malmö, þar sem hann er búsettur. Aðspurður segir hann dvölina í New York hafa verið skemmtilega og fræðandi.

„Það er áhugavert að sjá hvernig svona stórt batterí er rekið og svo er náttúrulega spennandi að fá tækifæri til að sýna utan Evrópu." -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.