Skoðun

Mottumars og krabbamein

Ragnheiður Haraldsdóttir skrifar
Í grein fyrir skemmstu í Fréttablaðinu eftir Teit Guðmundsson lækni undir fyrirsögninni „Misskilin motta!?" og í viðtali við hann á Bylgjunni komu fram sjónarmið sem þarft er að leiðrétta. Þar gætir nokkurs misskilnings.

Það er ekki rétt að Krabbameinsfélagið einblíni á blöðruhálskirtilskrabbamein og eistnakrabbamein í átaks- og fjáröflunarátaki sínu Mottumars, karlmenn og krabbamein. Þvert á móti hefur frá upphafi verið lögð áhersla á almenn heilsuboðorð til karla og að menn þekki fyrstu einkenni margvíslegra krabbameina. Áhersla var lögð á blöðruhálskirtilkrabbamein í fyrra og í hitteðfyrra, en það er algengasta krabbamein karla. Að mati okkar var mikilvægt að opna umræðuna um það krabbamein til að auðvelda körlum að bregðast við fyrstu einkennum. Þetta hefur tekist mjög vel. Nú í ár er aukin áhersla á önnur krabbamein jafnhliða.

Það er heldur ekki rétt að ganga út því frá að Krabbameinsfélagið hvetji alla karlmenn til þess að fara í mælingu á PSA í blóði. Hið rétta er að eitt aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins, Framför, sendi fimmtugum körlum bréf og hvatti til slíkra mælinga. Sjónarmið þeirra og rök hafa komið fram í fjölmiðlum. Í yfirlýsingu landlæknis af því tilefni er vísað í fræðsluefni Krabbameinsfélagsins, sem mælir með einstaklingsbundinni nálgun í þessu efni. Þetta fræðsluefni er að finna m.a. á heimasíðu félagsins (www.krabb.is) og panta má fræðslubæklinga beint frá okkur.

Teitur hvetur til aðgerða til að sporna við ristilkrabbameini, og þar er Krabbameinsfélagið honum sammála. Þess vegna hafa Krabbameinsfélag Íslands og ýmis aðildarfélög þess á undanförnum árum staðið fyrir ráðstefnum um ristilkrabbamein (ein slík nú í mars), gefið út fræðsluefni og hvatt til skimunar. Í fræðslumyndinni „Þetta er svo lúmskt" (útg. 2011) er fjallað um ýmsa þætti er varða krabbamein í ristli og endaþarmi. Þar eru viðtöl við einstaklinga sem hafa greinst með þennan sjúkdóm og við fagfólk sem vinnur að greiningu og meðferð hans. Einnig er lögð áhersla á að kynna hvað hver einstaklingur getur gert til að draga úr hættunni á að fá sjúkdóminn og hvað hægt er að gera til að greina hann á forstigi, þegar mestur möguleiki er á lækningu.

Flestum er ljóst að nú er sannarlega kominn tími til að stíga stærri og fleiri skref til að fækka ristilkrabbameinum hér á landi, og beita til þess öllum tiltækum ráðum. Þar liggja mikil sóknarfæri, því krabbamein í ristli má greina á forstigi og frumstigi, og því fyrr sem það greinist, þeim mun betri er árangur meðferðar.

Krabbameinsfélag Íslands mun áfram láta mikið til sín taka og með hjálp og stuðningi almennings í landinu munum við setja markið hátt og ná árangri í baráttunni við margs konar krabbamein.


Tengdar fréttir

Misskilin motta!?

Nú fögnum við á nýju ári aftur Mottumars svokölluðum sem hefur að markmiði að ýta undir árvekni karla gegn krabbameini og einkennum þess. Þetta er frábært framtak og hefur lukkast í alla staði mjög vel undanfarin ár og hafa karlmenn látið sér vaxa skegg og þannig sýnt stuðning sinn í verki og aukinheldur safnað áheitum til stuðnings Krabbameinsfélaginu í rannsóknir, fræðslu og forvarnir.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×