Skoðun

Áskorun til Alþingis

Heimir Hannesson skrifar
Ein meginregla opinbers réttarfars hér á landi er að dómþing skulu vera opin almenningi. „Dómþing skal háð í heyrandi hljóði“ segir í stjórnarskrá lýðveldisins.

Mér þótti því dapurlegt þegar mér, ásamt öðrum, var vísað úr lestrarsal Þjóðmenningarhússins á mánudaginn var.

Lítið pláss var fyrir fólk, en fréttastofur landsins sögðu síðar frá því að 75 sæti væru fyrir áhorfendur. Í flestum þeirra sátu líklega aðstandendur Geirs H. Haarde og fulltrúar fjölmiðla. Því má ætla að einungis örfáir tugir raunverulegra áhorfenda fái að verða vitni að réttarhöldunum.

Ekki þarf að þylja upp mikilvægi þessa máls. Sleitulaus umfjöllun allra fjölmiðla landsins síðustu daga dugir sem vitnisburður þess efnis.

Ég tel mig heldur ekki þurfa að rökstyðja það nánar að dómþing þetta sé ekki háð í heyrandi hljóði. Dómþing Landsdóms uppfyllir ekki með nokkru móti áðurnefndar kröfur stjórnarskrárinnar, meginreglur sakamálaréttar um opin réttarhöld og almannavilja, sem er óvenju skýr í þessu máli. Almenningur þarf að búa við að misvandvirkir fréttamenn endursegi það sem fram kemur í dómnum.

Í þessu ljósi og því að hvorki saksóknari né sakborningur hafa gert athugasemdir við það að réttarhöldunum verði sjónvarpað, legg ég til að Alþingi breyti löggjöf um landsdóm.

Ég skora á Alþingi að gera það sem gera þarf og tryggja almenningi aðgengi að sakamáli því sem þingið hefur höfðað á hendur Geir H. Haarde.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×