Skoðun

Áhrif kvenna í atvinnulífinu eru að aukast

Þorkell Sigurlaugsson skrifar
Framundan er tími aðalfunda og kjör stjórna fyrirtækja og eftir tæp tvö ár eða í september 2013 taka gildi ný lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns verði aldrei lægra en 40% í stjórnum stærri hlutafélaga. Þetta á við um öll fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn.

Það var umdeilt hvort það þyrfti löggjöf til að knýja fram jákvæðar breytingar í þessa átt. Staðreyndin er aftur á móti sú að viðhorfin eru að breytast og flestir eru nú sammála um að auka þurfti þátt kvenna í stjórnun fyrirtækja og nýta þannig mikilvæga starfskrafta og þekkingu þeirra sem eru helmingur þjóðarinnar.

Á Viðskiptaþingi þann 15. febrúar jókst hlutur kvenna í stjórn Viðskiptaráðs milli aðalfunda. Í fráfarandi stjórn voru konur 33% af aðalstjórnarmönnum. Nú nemur hlutfall kvenna í aðalstjórn um 37%.

Heiðursfélagar ViðskiptaráðsÁ afar vel heppnuðu Viðskiptaþingi voru fimm karlar, fyrrum formenn og velunnarar Viðskiptaráðs, sæmdir nafnbótinni Heiðursfélagi Viðskiptaráðs. Þeir voru; Davíð Scheving Thorsteinsson, Haraldur Sveinsson, Hjalti Geir Kristjánsson, Jóhann J. Ólafsson og Ragnar S. Halldórsson. Heiðursfélagi Viðskiptaráðs er sæmdarheiti sem veitt er mönnum er hafa lagt sérstaklega mikið af mörkum í þágu viðskiptafrelsis og framfara í atvinnulífinu. Þér félagar áttu þetta svo sannarlega skilið og ég fann það á fundinum að þeir mátu það mikils að fá þessa viðurkenningu. Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, tilkynnti um útnefninguna og sagði m.a: „Á langri sögu Viðskiptaráðs hefur margt áunnist. Gildin hafa ávallt verið þau sömu og eiga ekki síður við í dag en fyrir 95 árum þegar ráðið var stofnað. Og það vill stundum gleymast, svona í svartnættishjali og skrítinni pólítík, að sú umgjörð atvinnulífs sem við höfum byggt hér á Íslandi hefur skapað okkur afar góð lífskjör. Þetta er hinsvegar allt mannanna verk og þeir eru margir sem lagt hafa hönd plóg og búið okkur sem á eftir ganga frjósaman jarðveg til ræktunar“

Þeir sem hlutu sæmdarheitið Heiðursfélagi Viðskiptaráðs Ísland að þessu sinni voru eingöngu karlar. Þegar þeir voru í forystu í viðskiptalífinu var það nánast undantekning að konur væru þar í hópnum. Þetta sýnir þá miklu breytingu sem orðið hefur á kynjahlutföllum í atvinnulífinu undanfarna 2-3 áratugi.

Þurfum að leggja áherslu á góða stjórnarhættiÞann 8. mars næstkomandi verður morgunverðarfundur á Grand Hótel þar sem rætt verður um bætta stjórnarhætti með tilliti til kynjahlutfalls í stjórnun fyrirtækja. Það er einmitt gott að ræða þetta nú þegar aðalfundatíminn er hafinn og mikilvægt að hvetja eigendur fyrirtækja og aðra þá sem geta haft áhrif á stjórnarkjör að huga að góðum stjórnarháttum og kynjahlutfalli í stjórnum fyrirtækja auk annarra þátta, svo sem varðandi þverfaglega breidd og aldursdreifingu, sem skiptir máli.

Háskólinn í Reykjavík hefur innan Opna háskólans verið undanfarin ár með námskeið undir heitinu „Ábyrgð og árangur stjórnarmanna“, sem er mikilvægur undirbúningur fyrir alla stjórnarmenn. Í þessu sambandi má benda á leiðbeiningar um góða stjórnarhætti fyrirtækja og þar má meðal annars líta til leiðbeininga OECD, Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Þá ætti einnig að horfa til leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja sem gefin hafa verið út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Ísland og Samtökum atvinnulífsins og reglna ASÍ um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar. Þeir sem eru í forystu í íslensku atvinnulífi verða að byggja upp trúverðugleika á ný. Heiðursfélagar í atvinnulífssamtökum eftir aldarfjórðung verða vonandi konur og karlar í réttum hlutföllum. Aðalatriðið er samt að við höfum hæft fólk til að leiða fyrirtæki okkar í atvinnulífinu og ekki síður í stjórnmálum.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×