Lífið

Svartur á leik sýnd í Hong Kong

Óskar Þór Axelsson ásamt aðalleikkonunni Maríu Birtu. Hann er á leiðinni til Hong Kong í lok mars.
Óskar Þór Axelsson ásamt aðalleikkonunni Maríu Birtu. Hann er á leiðinni til Hong Kong í lok mars. fréttablaðið/anton
Óskar Þór Axelsson, leikstjóri myndarinnar Svartur á leik, ferðast til Hong Kong í lok mars þar sem myndin verður sýnd á alþjóðlegri kvikmyndahátíð þar í borg.

„Mér skilst að þetta sé ein af þremur aðalhátíðunum í Asíu. Ég er mjög ánægður með þetta því Asía er stór og spennandi markaður. Þessi mynd gæti virkað á Asíumarkaði,“ segir Óskar Þór.

Búið er að selja sýningarréttinn á Svartur á leik til allra Norðurlandanna, Bretlands, Hollands, Belgíu, Lúxemborgar og Eistlands. Fleiri lönd eiga eftir að bætast í hópinn.

Rúmlega 8.200 manns borguðu sig inn á myndina um síðustu helgi sem er þriðji besti árangur íslenskrar frumsýningarmyndar frá upphafi. Aðeins Mýrin og Bjarnfreðarson hafa náð betri árangri. „Þetta er eiginlega framar vonum,“ segir leikstjórinn. „Mér finnst að myndir eigi að vera skemmtilegar fyrst og fremst. Við erum búin að kynna hana sem undirheimamynd en það er ekki mikið talað um að hún er fyndin og sniðug. Það hefur kannski komið fólki á óvart.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.