Lífið

Alls ekki hvítan bíl fyrir Tony Bennett

Dökkur lúxusjeppi, rauðvín og samlokur er á meðal þess sem á að bíða eftir Tony Bennett á Íslandi.
Dökkur lúxusjeppi, rauðvín og samlokur er á meðal þess sem á að bíða eftir Tony Bennett á Íslandi.
Eilífðartöffarinn Tony Bennett kemur fram í Eldborgarsal Hörpu ásamt hljómsveit föstudaginn 10 ágúst. Þegar kröfulisti Bennett er skoðaður, sem má finna á vefsíðunni Thesmokinggun.com, kemur í ljós að hann er hógvær maður, nema þegar kemur að samgöngum.

Bennett vill að sjálfsögðu ferðast í fyrsta farrými til landsins. Þegar hann lendir í Keflavík skal bíða eftir honum svartur eða dökkblár lúxusjeppi. Mjög skýrt er tekið fram í kröfulistanum að bíllinn skuli alls ekki vera hvítur.

Hótelið skal vera í fínni kantinum og gríðarlega mikilvægt er að hægt sé að opna gluggana á hótelherbergjunum.

Í búningsherbergi söngvarans skal meðal annars vera stór spegill og sími, sem Bennett á að geta notað að vild.

Tony Bennett er hógvær þegar kemur að kröfum um matinn sem á að bíða hans í búningsherberginu. Hann vill fá ávexti, vatn, samlokur og eina flösku af merlot rauðvíni. Þá vill hann kalt hvítvín, gos og koffínlaust kaffi.

Ísleifur Þórhallsson, einn af skipuleggjendum tónleikanna, vildi ekki tjá sig um listann. Miðasala á tónleikana hefst á miðvikudaginn. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.