Lífið

Dyraverðirnir klippa á bindin

Að sögn Arnars Gíslasonar verður klippt á öll bindi á nýja skemmtistaðnum.
Að sögn Arnars Gíslasonar verður klippt á öll bindi á nýja skemmtistaðnum.
„Dyraverðirnir verða með skæri á sér og þeir klippa á bindin," segir Arnar Gíslason, einn af eigendum nýs skemmtistaðar sem kemur í stað Olivers á Laugaveginum.

Engin bindi verða leyfð á staðnum enda verður hann í anda gamanmyndarinnar The Big Lebowski þar sem bindisnotkun var litin hornauga af aðalpersónunum.

Að sögn Arnars, sem rekur einnig Enska barinn, opnar staðurinn upp úr miðjum mars og eru framkvæmdir í fullum gangi. Búið er að panta risastóran glymskratta frá útlöndum og fá gestirnir því tækifæri til að stjórna tónlistinni sjálfir. „Þetta verða bara slagarar og ef þú spilar sama lagið tvisvar verður refsing."

Staðnum verður skipt upp í fjögur mismunandi svæði. Fremst verður keilubraut, sem hugsanlega verður bara upp á punt, í miðjunni verður bandarísk verönd, og innst í húsinu þar sem áður var dansgólfið verður bar og veitingastaður. Á efri hæðinni verður svo setustofa.

Arnar segir að gestir staðarins geti valið það svæði eða leikmyndir sem henta þeim og það sé ekki skilyrði að hafa séð kvikmyndina. „Ef þú fílar ekki neitt svæði er annað hvort eitthvað að þér eða okkur," segir hann léttur.

Meðeigendur Arnars eru þeir Logi Helgason, Andri Björnsson og Óli Már Ólason. Þeir tveir síðastnefndu hafa rekið skemmtistaðinn Vegamót.

Inntur eftir því hvort þetta sé ekki dýrt verkefni segir Arnar: „Þetta er ekkert brjálæðislega dýrt. Þú getur gert allt á Íslandi og ég reyni að versla við íslensk fyrirtæki. En auðvitað kostar svona. Við erum líka að hugsa til fimmtán ára. Þá er allt í lagi að leggja aðeins í staðinn."-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.