Lífið

Sársauki nálarinnar venst seint

Jón Þór Ísberg vill meina að strákar séu yfirleitt hugaðri en stelpur og fái sér stærri húðflúr. Það á ekki við í tilviki Fríðu Rakelar Kaaber sem fær sér mynd sem þekur allt bakið.
Jón Þór Ísberg vill meina að strákar séu yfirleitt hugaðri en stelpur og fái sér stærri húðflúr. Það á ekki við í tilviki Fríðu Rakelar Kaaber sem fær sér mynd sem þekur allt bakið. Fréttablaðið/stefán
Húðflúr eru ávanabindandi viðurkennir Fríða Rakel sem er að þekja á sér bakið með japanskri mynd en það er Jón Þór Ísberg sem á heiðurinn af verkinu. Hann vill meina að húðflúr séu að verða stærri og litríkari.

Húðflúr „Ég get alveg viðurkennt að þetta er ávanabindandi,“ segir háskólaneminn Fríða Rakel Kaaber en hún hefur verið að vinna í að láta þekja á sér bakið með japanskri mynd síðan árið 2006.

Fríða Rakel fékk sér fyrsta húðflúrið þegar hún var 18 ára gömul og sá alltaf mikið eftir því. „Ég elti tískubylgjur þess tíma og fékk mér tákn á mjóbakið. Illa ígrunduð ákvörðun hjá mér og mig langaði að reyna að fela það,“ segir Fríða sem í kjölfarið fór að skoða myndir og tákn á netinu.

Myndin sem varð fyrir valinu er af japönsku kirsuberjatré með páfugli í bakgrunninn, en myndin nær yfir allt bak hennar. „Kirsuberjatréð táknar lífið í heild sinni. Blómin sem vaxa á þessum trjám blómstra og deyja fljótt og það minnir mann á að lífið er stutt og því um að gera að njóta þess,“ segir Fríða en listaverkið hefur tekið sinn tíma og er ekki enn tilbúið.

Fríða segist ekki þora að reikna út hvað húðflúrið hefur kostað hana en viðurkennir að það séu nokkrir hundrað þúsund kallar á bak við verkið. Henni finnst það samt ekki hár verðmiði fyrir eitthvað sem endist ævilangt.

„Það er eitthvað við það að fá sér húðflúr. Að undirbúa sig andlega og líkamlega fyrir hvern tíma, ná að kyngja sársaukanum og loks spennufallið þegar það er búið. Manni líður eins og maður hafi afrekað eitthvað,“ segir Fríða en þrátt fyrir að vera orðin ansi vön nálinni viðurkennir hún að sársaukinn venjist seint. „Nei, þetta er misvont en alltaf vont.“

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.