Lífið

Sýnir íslensku ullina á tískuvikunni í London

Erna Einarsdóttir sýnir útskriftarlínu sína frá Central Saint Martins skólanum á tískuvikunni í London en hún gefur íslensku ullinni uppreisn æru í fatalínu sinni.
Erna Einarsdóttir sýnir útskriftarlínu sína frá Central Saint Martins skólanum á tískuvikunni í London en hún gefur íslensku ullinni uppreisn æru í fatalínu sinni.
„Ég held að ég sé búin að setja met í svefnleysi undanfarna daga og verið að vinna 16-18 tíma á dag," segir fatahönnuðurinn Erna Einarsdóttir en hún er að útskrifast frá tískuskólanum fræga Central Saint Martins í London.

Erna leggur stund á meistaranám í fatahönnun við skólann með áherslu á textíl og prent. Hún er ein af útvöldum nemendum skólans sem fá að taka þátt í útskriftarsýningunni sem fer fram næstkomandi föstudag í tengslum við tískuvikuna í London. Útskrifstarsýningu skólans er jafnan beðið með mikilli eftirvæntingu hjá tískupressunni enda hefur skólinn alið af sér helstu fatahönnuði nútímans á borð við Stellu McCartney, Alexander McQueen og Phoebe Philo. Erna er fyrsti Íslendingurinn sem sýnir í útskriftasýningu Central Saint Martins,

„Kennurunum hérna finnst áhugavert að vera með Íslending í skólanum. Ég er ótrúlega spennt að taka þátt í þessu og ef vel gengur getur þátttaka í sýningunni opnað margar dyr. Ég hef samt ekki haft mikinn tíma til að leiða hugann að því enda í mörg horn að líta þessa dagana," segir Erna sem hefur verið að hringja út aðstoðarfólk til að hjálpa sér á lokasprettinum. „Það hafa um 30 manns hjálpað mér að koma þessu heim og saman. Ég hef meira að segja verið að hringja í ókunnuga Íslendinga sem ég hef frétt af í London eins og au pair-stúlkur."

Erna vinnur útskriftarlínu sína upp úr íslensku ullinni og fékk fyrirtækið Ístex til að styrkja sig með efnivið. Hún vill ekki gefa of mikið uppi í sambandi við fatalínuna en hún er öll unnin í höndunum og inniheldur meðal annars prjónaðar peysur.

Erna tók BA-nám í fatahönnun í Amsterdam og fór þaðan í Central Saint Martins sem var efstur á óskalista hennar. „Ég var í skýjunum þegar ég komst inn og eins og margir aðrir sá ég skólann og allt sem honum tengist í hyllingum. Glamúrímyndin var samt fljót að fölna enda er hér mikil samkeppni og geysilegar kröfur gerðar til nemenda. Þetta er erfitt og vinnuálagið hefur oft á tíðum reynt á geðheilsuna hjá manni," segir Erna áður en hún heldur áfram að leggja lokahönd á sýninguna en fatalínu Ernu verður hægt að sjá á vefsíðunni Style.com sem gerir útskriftasýningunni alltaf góð skil.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.