Lífið

Yrsa gerir það gott í Noregi

vinsæl í noregi Yrsa Sigurðardóttir hefur fengið góð viðbrögð í Noregi við bók sinni Ég man þig.
vinsæl í noregi Yrsa Sigurðardóttir hefur fengið góð viðbrögð í Noregi við bók sinni Ég man þig.
„Þetta er glæsilegt. Hún hefur aldrei farið svona hátt," segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti Veröld.

Tryllirinn Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttir er í tíunda sæti yfir vinsælustu skáldsögur Noregs en listi þess efnis var birtur í öllum helstu dagblöðum Noregs í gær.

Ég man þig er fyrsta bók Yrsu sem kemur út hjá norska forlaginu Kagge en annað norskt forlag gaf út fyrstu þrjár bækur hennar þar í landi. Kagge hefur þegar sett aðra prentun af bókinni í gang.

Vinsældir Ég man þig í Noregi eru engin tilviljun því bókin hefur fengið góða dóma þar í landi og sagði gagnrýnandi Verdens Gang hana „óbærilega spennandi".

Yrsa var einmitt stödd í Noregi á dögunum við kynningu á Ég man þig og var meðal annars í stóru viðtali hjá Verdens Gang. Hún fer jafnframt á stóra glæpasagnahátíð þar í landi um næstu mánaðamót. „Norðmenn eru greinilega að kveikja á henni," segir Pétur Már.

Ég man þig hefur áður komið út í Þýskalandi og þar hefur hún selst í hátt í hundrað þúsund eintökum auk þess sem hún sat vikum saman á þýska bóksölulistanum. Bókin kemur hugsanlega út í Bretlandi síðar á þessu ári og í Bandaríkjunum á því næsta. Einnig er bókin væntanleg í verslanir í Póllandi, Portúgal og Frakklandi.

Ég man þig kom út hér á landi fyrir jólin 2010 og hefur selst í yfir tuttugu þúsund eintökum.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.