Lífið

Arabískur plötusnúður á Selfossi

DJ Slim spilar á þrennum tónleikum hérlendis á næstunni.
DJ Slim spilar á þrennum tónleikum hérlendis á næstunni.
„Ég elska Ísland. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem hingað og þetta er mjög fallegt land,“ segir plötusnúðurinn DJ Slim sem kom til Akureyrar í gær eftir sólarhringsferðalag frá Katar. „Ég gæti vel hugsað mér að taka upp næsta tónlistarmyndband mitt hérna.“

Slim hóf feril sinn sem rappari fyrir um tuttugu árum og spilaði m.a. á tónleikum með Coolio í París. Hann var á meðal fyrstu arabísku rapparanna til að koma fram á sjónarsviðið en sagði á endanum skilið við rappið.

Nokkrum árum síðar ákvað hann að gerast plötusnúður og hefur spilað house-tónlist af miklum krafti undanfarin þrjú ár. „Ég nota nýja tækni þar sem ég endurhljóðblanda og sem nýja tónlist á meðan ég er að spila,“ segir Slim sem notast við Midi-græjur í fagi sínu.

Slim, sem er fæddur í Túnis, starfar við þrívíddargerð á sjónvarpsstöð í Katar og hefur Fréttablaðið heimildir fyrir því að hann ætli að taka upp efni fyrir stöðina um næturlífið á Íslandi. Hann vildi ekkert tala um dagvinnuna sína við blaðamann heldur miklu frekar um plötusnúðaferilinn. Hann spilar þrívegis hér á landi, eða á Akureyri í kvöld og annað kvöld og á 800 Bar á Selfossi á laugardagskvöld.

Með honum á Akureyri spilar plötusnúðurinn Birgir Rafn Ólason, sem flutti Slim til landsins. „Við erum búnir að vinna tónlist saman í gegnum netið. Ég hélt að þessi maður myndi aldrei samþykkja að koma til Íslands nema fyrir stórar fúlgur fjár en honum fannst það ekkert mál,“ segir Birgir og bætir við: „Hann er að gera hluti sem enginn annar plötusnúður er að gera.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.