Skoðun

Öskjuhlíð, fólkvangur í miðri borg

Sigríður Sigurðardóttir skrifar
Reykjavíkurborg sótti um hjá Evrópusambandinu um að vera græn höfuðborg og komst í úrslit. Borgirnar sem verða fyrir valinu eru metnar út frá ýmsum hliðum borgarlífsins þ.m.t. grænum svæðum og þurfa að huga að sjálfbærni innan borgarmarkanna með tilliti til velferðar íbúa og varðveislu menningararfsins. Velferð er hluti af sjálfbærri hugsun og því mikilvægt að Reykjavíkurborg fari varlega þegar deiliskipulag er gert með græn svæði.

Ég legg til að Reykjavíkurborg sæki um til Umhverfisstofnunar að Öskjuhlíðin verði gerð að fólkvangi. Tilgangurinn með þessum fólkvangi ætti að tryggja aðgengi íbúa að náttúru innan borgarmarkanna og að ekki fari forgörðum sú saga og náttúrufyrirbæri sem þar er að finna. Almenningur, ferðamenn og nemendur gætu þá notið umhverfisins og fræðst um sögu borgarinnar og um leið mætt markmiðum í umsókn sinni til Evrópusambandsins.

Fólkvangurinn Öskjuhlíð getur boðið upp á líflegt safnasvæði. Þar er hægt að nefna sögu flugsins, sögu seinni heimstyrjaldarinnar, jarðfræði, sögu heita og kalda vatnsins og ýmsar náttúruminjar. Öskjuhlíðin var áður melur en um 1950 var hafin þar skógrækt og þar er því einnig saga skógræktar á Íslandi. Gera mætti Kvennasögusafninu hærra undir höfði á þessum slóðum og jafnvel koma fyrir ÍslandsGátt sem Landvernd er með á stefnuskrá sinni.

Ekki er nauðsynlegt að byggja ný hús fyrir þessi söfn. Það þarf að skoða möguleika á þeim húsum sem fyrir eru við Öskjuhlíðina. Á deiliskipulagi til ársins 2024 er gert ráð fyrir stríðsminjasafni í gömlum húsum við Nauthólsvíkina og þeim húsum veitir sannarlega ekki af upplyftingu. Koma þarf upp upplýsingaskiltum við merka staði og minjar og fuglaskoðunarhús með útsýni yfir Fossvoginn. Einnig er hægt að hugsa sér samstarf við aðila sem fyrir eru á svæðinu s.s. Isavia og Háskólann í Reykjavík. Öskjuhlíðin er ein stór útikennslustofa þar sem grunnskólanemendur ættu að hafa aðstöðu og tækifæri til vettvangsnáms. Nú þegar er skipulögð safnfræðsla víða í borginni fyrir grunnskólanemendur og ferðamenn. Öskjuhlíð – fólkvangur þarf að bjóða upp á slíkt hið sama í samstarfi við Náttúruskóla Reykjavíkur og Minjasafn Reykjavíkur.

Samgöngur þarf að bæta til muna og horfa sérstaklega til aðgengis hjólandi vegfarenda. Ferðir strætisvagna þurfa að vera mun tíðari og umhverfisvænn smávagn gæti gengið frá miðbæ Reykjavíkur að Víkinni, sjóminjasafni, meðfram Vatnsmýrinni og að HR. Safnavagn sem þessi gæti haft leið meðfram Fossvoginum að Hamraborg og tengst þar safnasvæði Kópavogs. Göngustígur sem liggur norður-suður þarf að vera upplýstur og tengjast betur almenningssamgöngum og göngustígakerfi við Bústaðaveg.

Öskjuhlíðin er perla í miðri borg, opið grænt svæði sem því miður hefur verið plokkað í frá öllum hliðum með efnistöku og byggingum og ég tel rétt að staldra nú við og huga að framtíðinni. Rökin fyrir byggingu Perlunnar á sínum tíma voru m.a. að fegra ásýnd Öskjuhlíðar þar sem tankarnir þóttu ekki mikil prýði. Sitt sýnist hverjum um það en víst er að Perlan fangar athygli áhorfandans og dregur að sér ferðamenn. Útsýnið frá Perlunni er einstakt og bygging af einhverjum toga skerðir útsýnið þaðan auk þess að breyta allri ásýnd hlíðarinnar. Fleiri byggingar hvort sem er efst á henni eða við hana skerða þessa ásýnd.

Hugmyndin um að koma fyrir Náttúruminjasafni Íslands efst á Öskjuhlíðinni er í mótsögn við hlutverk safnsins sem er m.a. náttúruvernd, og að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og þar af leiðandi fellur hugmyndin um sig sjálf. Frekar ætti að nýta Perluna undir þær hugmyndir sem ég hef áður rakið. Náttúruminjasafnið ætti betur heima vestan við íþróttasvæði Vals og væri þannig í beinum tengslum við Tjörnina, Vatnsmýrina og Öskjuhlíð-fólkvang.

Reykjavík væri betri staður ef Öskjuhlíðin fengi héðan í frá að vera ósnert af byggingaframkvæmdum og gerð að fólkvangi þar sem bæði íbúar landsins og erlendir ferðamenn gætu notið náttúrunnar og fræðst um sögu Reykjavíkurborgar.




Skoðun

Sjá meira


×