Lífið

Bekkjarsystur demba sér í auglýsingabransann


Þær Svala Hjörleifsdóttir, Júlía Hvanndal, Arna Rún Gústafsdóttir og Jóna Berglind Stefánsdóttir stofna auglýsingastofuna Undralandið en þær eru allar menntaðar grafískir hönnuðir.
Þær Svala Hjörleifsdóttir, Júlía Hvanndal, Arna Rún Gústafsdóttir og Jóna Berglind Stefánsdóttir stofna auglýsingastofuna Undralandið en þær eru allar menntaðar grafískir hönnuðir. Mynd/Anton
„Þetta er alltaf áhætta en maður verður bara að taka stökkið," segir Svala Hjörleifsdóttir, framkvæmdastýra nýju auglýsingastofunnar Undralandið.

Auglýsingastofan var stofnuð í byrjun árs en á bak við hana standa fjórar bekkjarsystur úr Listaháskólanum. Ásamt Svölu eru Júlía Hvanndal, Jóna Berglind Stefánsdóttir og Arna Rún Gústafsdóttir eigendur stofunnar en þær eru allar menntaðar í grafískri hönnun.

„Við fengum þessa hugmynd eftir að við útskrifuðumst síðasta vor. Þá byrjuðum við allar í ýmsum lausamennskustörfum og langaði að kanna möguleikana hvort við gætum ekki unnið allar saman," segir Svala en stúlkurnar eru góðar vinkonur og vinna vel saman að hennar sögn. „Við unnum mjög mikið saman í skólanum og erum til dæmis saman í kvenfélagi sem hittist reglulega."

Þegar stúlkunum bauðst húsnæðið fyrir skrifstofuna fyrir ofan Nýlenduvöruverzlun Hemma og Valda á Laugavegi 21 var ekki aftur snúið. „Við erum búnar að koma okkur vel fyrir og á besta stað í bænum," segir Svala og bætir við að þær séu hvergi bangnar við að fóta sig meðal auglýsingarisanna á Íslandi í dag.

„Við erum byrjaðar af krafti og höfum fengið mikinn meðbyr. Við höfum verið að takast á við ýmiss konar verkefni og ímyndarsköpun hjá nýjum fyrirtækjum sem er mjög skemmtilegt. Við teljum okkur koma með nýjar áherslur og hugmyndir þar sem við erum nýútskrifaðar og svo erum við allar kvenkyns, sem sker okkur óneitanlega frá öðrum skrifstofum," segir Svala og bætir við að ef þetta gengur ekki upp búi þær alltaf að reynslunni sem fylgir því að stofna eigið fyrirtæki.

Svala segir að það hafi verið smá stökk fyrir þær að fara frá skólastofunni á mikilvæga fundi með væntanlegum viðskiptavinum. „Þetta voru mikil viðbrigði en kvíðahnúturinn minnkar og minnkar með hverjum fundinum. Okkur hefur verið tekið ótrúlega vel. Það þýðir ekkert annað en að henda sér út í djúpu laugina og prófa sig áfram."

Hægt er að skoða nánar starfsemi og verk stúlknanna í Undralandi á vefsíðunni undralandid.is.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.