Skoðun

Skilaboðin eru skýr

Hrafnhildur Ragnarsdóttir skrifar
Sjálfstæðiskonan Sirrý Hallgrímsdóttir segir í grein um jafnréttismál að sjálfstæðiskonur hafi verið „brautryðjendur á sviði jafnréttismála“. Sirrý fer aftur til upphafs síðustu aldar til að finna konur sem gegnt hafa mikilvægum embættum í nafni Sjálfstæðisflokksins og nefnir þar sérstaklega Ingibjörgu H. Bjarnason, en hún tók sæti á þingi fyrst kvenna fyrir sérstakan Kvennalista, þó síðar hafi hún gengið til liðs við íhaldið.

Ef við lítum okkur nær þá má benda á að undir forystu jafnaðarmanna, Samfylkingarinnar, hafa í fyrsta sinn konur orðið forsætisráðherra og fjármálaráðherra, hlutfall kynja í ráðherrahópnum er jafnt og mikið hefur áunnist í baráttunni gegn vændi og kynferðisofbeldi. Innleidd hefur verið aðgerðaráætlun gegn mansali og kaup á vændi bönnuð. Búið er að lögbinda 40% hlutfall hvors kyns í stjórnum lífeyrissjóða og fyrirtækja, setja jafnlaunastaðal til að vinna gegn kynbundnum launamun og beitir ríkisstjórnin kynjaðri hagstjórn í efnahagsmálum. Svona má lengi telja upp árangur jafnaðarmanna í jafnréttismálum.

Það er rétt hjá Sirrý að vinstri og hægri konur hafa viljað fara ólíkar leiðir til að stuðla að jafnrétti kvenna og karla. Vinstri konur hafa einfaldlega viljað ganga lengra en frjálslyndisstefnan og láta sér ekki nægja að setja lög og trúa því að þá verði allt gott. Við vitum betur. Við vitum að sértækar aðgerðir þarf til að uppræta rótgróið kynjamisrétti. Lagasetningar einar og sér nægja ekki til. Þar greinir okkur á og það hefur ítrekað reynt á samstöðu kvenna þegar sjálfstæðiskonur setja sig upp á móti sértækum aðgerðum í þágu kynjajafnréttis. Rannsóknir hafa sýnt að nauðsynlegt er að heimila sértækar aðgerðir til að fjölga konum í áhrifastöðum. Samfara þessari niðurstöðu hafa einkenni frjálslyndisstefnu að mestu horfið úr jafnréttislöggjöfinni. Þrátt fyrir það hefur umræða um að hið fullkomna jafnrétti sé eingöngu tímaspursmál verið langlíf meðal frjálshyggjumanna.

Ummæli Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, eru mjög lýsandi fyrir viðhorf frjálslyndisstefnu Sjálfstæðisflokksins í jafnréttismálum: „Aukin sókn kvenna í menntun og barátta þeirra mun skila sér í algjöru jafnrétti á næstu tuttugu árum […] Brýnasta mál jafnréttisbaráttunnar í dag er að konur sjálfar sannfærist um að kynferði þeirra skipti ekki máli fyrir laun þeirra.“ (Ríkisútvarpið: 17.4.2004). Þá sagði Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, að jafnréttislögin væru „barn síns tíma“, en þá hafði kærunefnd jafnréttismála komist að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að ráða hefði átt konu, sem væri jafn hæf eða hæfari en aðrir umsækjendur í stöðu hæstaréttardómara. Ráðherrann skipaði hins vegar frænda forsætisráðherra (Davíðs Oddsonar) í embættið og sagði m.a.: „Ég tel að miðað við núverandi stöðu í okkar þjóðfélagi sé það tímaskekkja að gera kröfur á þessum forsendum til þeirra sem hafa veitingarvaldið, að binda hendur þeirra á þennan veg. Það er óneitanlega mjög erfitt að fikra sig eftir þessum lögum.“ (Morgunblaðið: 7.4.2004).

Á svipuðum tíma kallaði höfundur leiðara Morgunblaðsins kynjakvóta skyndilausnir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra og sjálfstæðiskona, kom samráðherrum sínum til bjargar þegar þeir voru gagnrýndir fyrir ráðningu frænda Davíðs og hafði þetta um jafnréttislögin að segja: „Ég tel að ég nái betri árangri með skoðunum mínum og baráttuaðferðum heldur en með beitingu öfgakenndra aðferða þar sem beitt er handafli. Jafnréttið á að koma frá grunninum, rótunum og hjartanu en ekki að vera skellt inn með margs konar valdboðum sem láta konur iðulega standa berskjaldaðar og líta illa út fyrir vikið.“ (Nýtt líf, 2004). Ég sé því ekki enn hvernig sjálfstæðiskonur hafa verið brautryðjendur í jafnréttismálum.

Nú er svo komið að forsætisráðherra okkar, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur gerst brotleg gagnvart jafnréttislögum. Jóhanna Sigurðardóttir fór eftir hæfnismati og réð á grundvelli þess hæfasta einstaklinginn, í stað þess að veita fyrrum flokkssystur sinni starfið. Úrskurður kærunefndar jafnréttismála kveður á um að að hæfnismatið hafi verið ófaglegt og að forsætisráðherra hafi brotið á konunni. Hún fékk ekki dæmdar skaðabætur, en henni voru dæmdar miskabætur sökum fréttatilkynningar sem forsætisráðuneytið sendi frá sér. Úrskurðurinn er bindandi, þökk sé Jóhönnu Sigurðardóttur, sem barðist fyrir því að kærunefnd jafnréttismála hefði raunverulegt vægi. Jóhanna Sigurðardóttir reyndi ítrekað að ná sáttum í þessu máli. Hún hefur ákveðið að virða úrskurðinn í stað þess að áfrýja og beðist opinberlega velvirðingar á því að hafa valdið miska. Jóhanna Sigurðardóttir hefur axlað fulla pólitíska ábyrgð í þessu máli og þannig eru hennar viðbrögð skýr. Hún gerði mistök, viðurkennir þau og bætir fyrir þau. Það gera góðir stjórnmálamenn. Hvað gerði Björn Bjarnason þegar hann gekk framhjá hæfari konu til að ráða vin sinn og frænda forsætisráðherra í valdamikið embætti? Hvað gerðu sjálfstæðiskonur þá?




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×