Erlent

Leiðangur til að kanna afdrif flugkonunnar Ameliu Earhart

Leiðangur er lagður af stað frá Hawaii en markmið hans er að rannsaka hver urðu afdrif Ameliu Earhart einnar þekktustu flugkonu heimsins á síðustu öld.

Leiðangur þessi er á leiðinni til hinnar óbyggðu Nikumaroro eyjar í Kyrrhafi en ein af kenningunum um afdrif Ameliu Earhart er að þar hafi hún lifað síðustu daga sína.

Amelia var fyrsta konan sem flaug ein yfir Atlantshafið en það gerði hún árið 1932. Hún var síðan í einstæðu flugi hringinn í kringum heiminn eftir miðbaugslínu árið 1937 þegar hún og siglingarfræðingur hennar, Fred Noonan hurfu.

Síðast sást til þeirra þegar Electra 10E flugvélin sem þau flugu tók á loft í byrjun júlí frá Papúa Nýju Gíneu það ár en næsta stopp þeirra átti að vera Howland eyja.

Leiðangursstjórinn, Ric Gillespie, telur að Amelia og Fred hafi nauðlent vél sinni á eða við Nikumaroro eyju og mun hann og kafarar sem eru með í för reyna að finna brakið af vélinni eða líkamsleifar þeirra beggja í sjónum kringum eyjuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×