Skoðun

Eilífur forseti

Guðný Gústafsdóttir skrifar
Kim Jong-il hvað?!" sagði vinkona mín nokkuð æst. Við vorum að tala um forsetakosningarnar. Hún æsir sig annars aldrei, alltaf pollróleg og með húmor fyrir hlutunum. Hún hefur verið að stúdera asíska pólitík og fannst rökrétt að vísa til Norður-Kóreu til að undirstrika hvað væri í gangi. Ég var ekki eins fljót að tengja og hváði. „Ha? Kim Jong-il?" „Já, þessi með sveipinn í hárinu og ógnarstjórnunina í Norður Kóreu manstu?!"

Einmitt. Já, ég man eftir honum. Hann fæddist upp úr 1940 í heimalandi sínu við rætur hárra fjalla. Hann gekk í kommúnistaflokkinn og sýndi fljótt leiðtogahæfileika enda náði hann langt á því sviði. Hann varð svo leiðtogi landsins í kringum 1995 og fékk titilinn „Eilífur forseti".

Hann var þekktur fyrir að rækta vináttusambönd við auðjöfra og gera vel við sjálfan sig. Sennilega er hann samt þekktastur fyrir að halda völdum með því að hræða þjóðina reglulega. Hann varaði stöðugt við utanaðkomandi ógn; fór víst með einhvers konar ótta-möntru í tíma og ótíma. Eða þegar honum fannst að eigin valdi vegið.

Nema hvað. Þegar ég var stelpa var mér gert að vera góð við minnimáttar. Það skilaði sér í því að ég vorkenndi fólki, þjóðum og heilu heimsálfunum fram eftir öllum aldri ef mér fannst einhver eiga undir högg að sækja. Eða bara verið plötuð eða plataður. Eins og Norður-Kórea.

Eða Ísland í hruninu svokallaða. Þegar þjóðin var plötuð og rænd. Þá vorkenndi ég minni eigin þjóð. Öllu fólkinu sem hafði látið blekkjast af fagurgala stjórnmálamanna og -kvenna sem afnámu regluverkið sem átti að vernda fjármagn fólksins. Fólkinu sem lét þá plata sig sem nýttu sér glufurnar, hirtu góssið og fóru svo. Fólkinu sem sat í súpunni. Þessi innræting mín var tekin til rækilegrar endurskoðunar í gærkvöldi.

Nú get ég ekki lengur vorkennt meirihluta þessarar þjóðar. Sem þrátt fyrir nýafstaðin hrunadans lætur plata sig í útjaskaða skóna og þiggur enn einn darraðardansinn.




Skoðun

Sjá meira


×