Lífið

Gogoyoko flytur tónleikaröðina yfir á Kexið

Tónlistarveitan gogoyoko hefur frá því í júní í fyrra haldið utan um hina vel heppnuðu tónleikaröð "gogoyoko wireless". Viðtökurnar hafa verið framar vonum og hafa tónlistarunnendur tekið röðinni fagnandi og lofað náið andrúmsloftið sem skapast hefur með tónlistarmönnum og áhorfendum á tónleikunum.

Tónleikaröðin heldur áfram á nýju ári og nú á nýjum stað því Kex Hostel við Skúlagötu hefur tekið henni opnum örmum og mun framvegis hýsa hana.

Fyrsti tónlistarmaðurinn til að koma fram á þessu ári er hin unga og hæfileikaríka Sóley Stefánsdóttir sem stimplaði sig rækilega inn í íslensku tónlistarflóruna með sinni fyrstu breiðskífu, We Sink, á síðasta ári. Sóley vann til tónlistarverðlauna Kraums sem voru afhent í desember og er að auki tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna í ár.

Flest þeirra sem þekkja til hljómsveitanna Seabear og Sin Fang vita að Sóley spilar þar stóran sess. Skemmtilegt og fróðlegt viðtal má lesa við tónlistarkonuna á tónlistarbloggi gogoyoko þar sem hún minnist m.a. á boð sem henni barst um að gerast tónlistarmaður í einu stærsta fjölleikahúsi heims í dag, Cirque Du Soleil.

Tónleikarnir fara fram í Gym & Tonic salnum á Kexinu. Salurinn opnar klukkan 21 og tónleikarnir hefjast um klukkan 22. Miðar kosta 1500 krónur í forsölu en miðasala fer fram á midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.