Lífið

Heiðrar sjómenn með skart-gripalínu fyrir bæði kynin

Var umkringdur demöntum í New York Orri Finnbogason skartgripahönnuður vann við demantaísetningar, meðal annars við Tiffany & Co., í New York en nú er hann fluttur heim og frumsýnir skartgripalínuna Akkeri fyrir bæði kynin í kvöld á Kex hostel.
Var umkringdur demöntum í New York Orri Finnbogason skartgripahönnuður vann við demantaísetningar, meðal annars við Tiffany & Co., í New York en nú er hann fluttur heim og frumsýnir skartgripalínuna Akkeri fyrir bæði kynin í kvöld á Kex hostel. Fréttablaðið/vilhelm
„Mig langaði að gera eitthvað með akkerið, tákn sem við þekkjum flest húðflúrað á upphandleggi gamalla sjómanna,“ segir skartgripahönnuðurinn Orri Finnbogason um nýja skartgripalínu sína, Akkeri.

Orri er gullsmiður að mennt en hann var búsettur og starfaði við fagið í New York í tíu ár áður en hann ákvað að snúa aftur heim fyrir þremur árum síðan. „Fyrst eftir að ég flutti út vann ég við að flytja demanta milli staða, sem getur verið vandasamt verk. Svo fór ég alfarið í demantaísetningar, en það er alveg sérfag úti,“ segir Orri sem meðal annars vann við að setja demanta í skartgripi fyrir eitt frægasta skartgripafyrirtæki í heimi, Tiffany & Co.

Enga demanta er þó að finna í nýju línu Orra, Akkeri, sem er bæði fyrir herra og dömur. Þar er að finna hálsmen, hringa, armbönd og eyrnalokka sem öll skarta tákninu fræga. Orri leitaði eftir innblæstri í íslensku sjómennskuhefðina og heillaðist af akkerinu sjálfu. „Það tengist eitthvað ævintýraþránni sem fylgir sjómennskunni og þeim mikilvæga tilgangi sem akkerið þjónar í sjómannslífinu,“ segir Orri en akkerið er landfestin og gerir sjómönnum kleift að stýra ferðalögum sínum í réttar áttir.

Orri hannaði skartgripina með þá einstaklinga í huga sem ganga yfirleitt ekki með skartgripi. „Þetta eru skartgripir fyrir töffara og mig langaði að höfða til þeirra sem ekki eru glysgjarnir að eðlisfari.“ Skartgripir Orra fást í Aurum í Bankastrætinu en í kvöld heldur hann sýningu ásamt Ýri Þrastardóttur, fatahönnuði, á Kex hostel en þar verður hægt að berja nýju línuna augum. Sýningin hefst klukkan 20.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.