Erlent

Kynæsandi bók veldur barneignaræði

Fifty Shades of Grey stefnir í að verða ein vinsælasta skáldsaga allra tíma.
Fifty Shades of Grey stefnir í að verða ein vinsælasta skáldsaga allra tíma. mynd/AFP
Bandarískir sérfræðingar búa sig nú undir mikið barneignaræði í Bandaríkjunum. Ástæðan fyrir þessu er sögð vera rómantíska skáldsagan 50 Shades of Grey sem notið hefur gríðarlegra vinsælda víða um heim.

Ástarsamband Anastasíu Steele og Christian Grey hefur heillað konur víða um heim. Skáldsagan þykir afar opinská í kynlífslýsingum. Frjósemissérfræðingar telja að vinsældir skáldsögunnar eigi óhjákvæmilega eftir að leiða til fleiri barneigna.

Fifty Shades of Grey er ein vinsælasta bók allra tíma. Frá því að hún kom út fyrir nokkrum vikum hefur nú selst í rúmlega 11 milljón eintökum. Engin bók hefur selst jafn vel á svo stuttum tíma.

Ellis Cashmore, prófessor í menningarfræði við háskólann í Staffordshire, spáir því að barneignir í Bandaríkjunum komi til með að ná nýjum hæðum á næstu mánuðum.

„Miðað við þann fjölda bóka sem seldur hefur verið þá munum við brátt ganga í gegnum barneignaræði," segir Cashmore. „Við gerum ráð fyrir að þessi skáldsaga eigi eftir að krydda mörg sambönd, það er alveg ljóst."

„Þetta er ótrúlega kynæsandi bók," sagði Cashmore. „Samt sem áður, þá er hún ekki beinlínis dónaleg."

Cashmore hefur nú þegar gefið þessari nýju kynslóð barna nafn: „50 Shades börnin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×