Handbolti

Guðjón: Það var væntanlega lítil vatnsnotkun á Íslandi í lok leiksins

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Guðjón hefur verið öruggur á vítalínunni.
Guðjón hefur verið öruggur á vítalínunni.
Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson var kampakátur eftir sigurinn á Noregi í kvöld sem var í meira lagi dramatískur.

"Ég geri ráð fyrir að vatnsnotkunin á Íslandi hafi verið lítil sem engin síðustu tíu mínútur leiksins miðað við þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á stórmótum. Það hefur líklega náð hámarki í kvöld," sagði glaður Guðjón.

"Við lendum í ákveðinni keðjuverkun í fyrri hálfleik því við erum alltaf að sækja lengra og lengra út. Þeir skora í hverri sókn og ég tek ekkert af þeim því þeir voru að spila vel. Þegar þeir skora svona mikið fyrir utan förum við ósjálfrátt að færa okkur framar á völlinn. Við lentum í vítahring sem erfitt var að komast út úr," sagði Guðjón sem ræddi málin við Björgvin markvörð í hálfleik.

"Ég sagði honum að mér væri skítsama hvernig en ég bað hann vinsamlegast um að gera eitthvað í markinu svo við ættum möguleika á að vinna þennan leik. Það var æðislegt að sjá hann stíga upp. Þá kom sjálfstraustið í vörnina um leið og það gerir gæfumuninn í lokin," sagði Guðjón sem missti aldrei trú á verkefninu.

"Við höfum lent í ótrúlegri leikjum en þessum. Það var æðislegt að vera í þessu liði. Það sem er best er að við hættum aldrei að trúa, sama hvað gengur á.

Við trúum alltaf hver á annan og stöndum saman. Að mínu mati gerði það útslagið í lokin. Það var ekkert stress, öskur eða læti út í hver annan. Hver og einn tók bara til í hausnum á sjálfum sér og uppfyllti sitt hlutverk."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×