Lífið

Limlestingar og 533 barna faðir

Woody Harrelson fer með hlutverk lögreglumanns af gamla skólanum sem er ákærð fyrir að berja mann í handjárnum í Rampart.
Woody Harrelson fer með hlutverk lögreglumanns af gamla skólanum sem er ákærð fyrir að berja mann í handjárnum í Rampart.
Kvikmyndin Rampart var frumsýnd í gær en sögusvið hennar er Los Angeles árið 1999. Woody Harrelson fer með hlutverk lögreglumannsins Dave Brown sem er af gömlu kynslóðinni og fer ekki eftir nýjum reglum og aðferðum lögreglunnar og hefur verið kærður fyrir að berja mann í handjárnum, lögreglustjóranum til mikils ama.

Í gær kom kvikmyndin Dream House einnig í kvikmyndahús. Hún segir frá fjölskyldu sem flytur inn í nýtt hús. Fljótlega komast þau að því að fyrri eigendur hafi verið limlestir af fjölskyldumeðlimi sínum sem virðist enn vera tengdur húsinu. Daniel Craig fer með eitt burðarhlutverka.

Kanadíska kvikmyndin Starbuck verður frumsýnd á morgun en hún segir frá miðaldra manni sem kemst að því, á sama tíma og kærastan hans tjáir honum að barn sé á leiðinni, að hann eigi samtals 533 börn eftir að hafa selt sæði til sæðisbanka fyrir tuttugu árum. Af þeim hafa 142 höfðað mál í sameiningu til að komast að því hver líffræðilegi faðir þeirra er, sem þau þekkja aðeins undir dulnefninu Starbuck. Myndin hefur slegið í gegn og verður endurgerð í Hollywood í leikstjórn Judd Apatow.

Diane Keaton og Kevin Kline sameina krafta sína í hugljúfu kvikmyndinni Darling Companion sem verður tekin til sýninga á morgun. Myndin segir frá hjónabandi þar sem konan elskar hundinn sinn meira en eiginmanninn.

- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.